Erlent

Sak­sóknarar vilja Pelicot í 20 ára fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gisele Pelicot hefur öðlast sérstakan sess í hugum margra kvenna, fyrir að krefjast þess að réttarhöldin fari fram fyrir opnum dyrum. Hún hefur verið viðstödd alla meðferð málsins og var fagnað með lófataki við komuna í gær.
Gisele Pelicot hefur öðlast sérstakan sess í hugum margra kvenna, fyrir að krefjast þess að réttarhöldin fari fram fyrir opnum dyrum. Hún hefur verið viðstödd alla meðferð málsins og var fagnað með lófataki við komuna í gær. Getty/Arnold Jerocki

Ákæruvaldið í Avignon í Frakklandi hefur farið fram á að Domnique Pelicot, sem hefur játað að hafa byrlað fyrir eiginkonu sinni og nauðgað henni, auk þess að bjóða öðrum að gera slíkt hið sama, verði dæmdur í 20 ára fangelsi.

Um er að ræða hámarksrefsingu fyrir brotin  en aðstoðarríkissaksóknarinn Laure Chabaud segir að jafnvel þótt um sé að ræða langan dóm sé hann hvergi nærri nógu þungur. Pelicot hefði svalað nautum sínum með því að ráðast gegn og niðurlægja þá manneskju sem hann sagðist unna mest.

Pelicot deildi upplýsingum um brot sín í spjallhópum á netinu og bauð öðrum mönnum að taka þátt í þeim. Talið er að allt að 70 menn hafi brotið gegn Gisele Pelicot en réttarhöldin sem nú standa yfir beinast gegn Dominique og 50 öðrum.

Flestir hafa játað að hafa brotið gegn Gisele en neita að hafa gerst sekir um nauðgun, þar sem þeir hafi ekki haft vitneskju um að hún væri ekki viljugur þátttakandi í kynlífsathöfnunum.

Meðferð málsins hefur nú staðið yfir í 50 daga og ríkissaksóknarinn Jean-Francois Mayet sagði af því tilefni að það hefði haft veruleg áhrif á samfélagið í Frakklandi og hugmyndir um sambönd og samskipti fólks.

„Þetta snýst ekki bara um sekt eða sýknu, þetta snýst um að gera grundvallarbreytingar á sambandi karla og kvenna,“ sagði hann.

Forsætisráðherrann Michel Barnier sagðist sannfærður um að málið myndi marka kaflaskil. Stjórnvöld hafa heitið aðgerðum og hyggjast meðal annars ráðast í vitundarvakningarátak um lyfin sem gjarnan eru notuð eru til að byrla fyrir konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×