Innherji

Fram­taks­sjóðurinn Aldir verður leiðandi fjár­festir í Dropp

Hörður Ægisson skrifar
Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, og Hreinn Gústavsson, tæknistjóri fyrirtækisins.
Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, og Hreinn Gústavsson, tæknistjóri fyrirtækisins.

Framtakssjóður í rekstri Aldir hefur eignast leiðandi hlut í fyrirtækinu Dropp, bæði með kaupum á nýju hlutafé sem er gefið út og eins með því að kaupa hluta af bréfum núverandi hluthafa. Félagið hefur stækkað hratt á undanförnum árum, meðal annars með kaupum á Górillu vöruhúsi, og sér fram á frekari fjárfestingar til að styðja við áframhaldandi vöxt.

Þeir hluthafar sem eru að selja til Aldir I munu hins vegar allir vera áfram í hluthafahópi Dropp og starfa með sjóðnum að uppbyggingu félagsins, að því er segir í tilkynningu.

Arnar Ragnarsson, framkvæmdastjóri sjóðastýringarfélagsins Aldir, segir Dropp hafa náð eftirtektarverðum árangri og með framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini sína skapað grundvöll fyrir aukinni starfsemi netverslana og samhliða því skilað neytendum auknu vöruúrvali og þægilegri þjónustu. „Við sjáum fjölda tækifæra til að þróa reksturinn áfram í samstarfi við aðra hluthafa og starfsmenn félagsins.“

Dropp hefur vaxið hratt frá stofnun þess 2019 og náð miklum árangri á markaði með pakkasendingar auk þess að byggja upp þekkt vörumerki. Fyrr á árinu gekk Dropp frá kaupum á Górillu vöruhúsi og býður nú viðskiptavinum sínum upp á bæði hýsingu og dreifingu.

Við töldum mikilvægt að fá fjárfesti á borð við Aldir í hópinn á þessum tímapunkti til að vinna með okkur að metnaðarfullum markmiðum um áframhaldandi vöxt og aukna þjónustu við viðskiptavini okkar.

„Þrátt fyrir mikinn vöxt á undanförnum árum er umfang netverslunar hér á landi enn óverulegt í samanburði við nágrannaríki okkar, hvort sem horft er til hlutfalls af smásölu eða árlegs fjölda pakkasendinga á mann og horfur á áframhaldandi vexti markaðarins samhliða auknu þjónustustigi við bæði verslanir og neytendur,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Hrólfs Andra Tómassonar, framkvæmdastjóri Dropp, eru framundan frekari fjárfestingar til að styðja við vöxt fyrirtækisins. „Við töldum mikilvægt að fá fjárfesti á borð við Aldir í hópinn á þessum tímapunkti til að vinna með okkur að metnaðarfullum markmiðum um áframhaldandi vöxt og aukna þjónustu fyrir viðskiptavini okkar.“

Tekjur Dropp voru samtals um 535 milljónir í fyrra og nærri tvöfölduðust milli ára. Útlit er fyrir sambærilegan vöxt í ár og heildarveltan verði í kringum einn milljarður króna.

Stærstu hluthafar Dropp um síðustu áramót voru Festi með ríflega þrjátíu prósenta hlut og sænska netverslunarfyrirtækið Boozt AB með um 24 prósent. Aðrir helstu fjárfestar í hluthafahópnum voru félög í eigu Guðjóns Karls Reynissonar, hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur og Hrólfs Andra.

Aldir I er ríflega níu milljarða framtakssjóður sem fjárfestir í fyrirtækjum með það fyrir augum að styrkja og bæta rekstur þeirra. Sjóðurinn er í eigu breiðs hóps stofnana- og einkafjárfesta en rekstur hans er sem fyrr segir í höndum samnefnds sjóðastýringarfélags. Það var stofnað af þeim Arnari, Heiðari Inga Ólafssyni og Ara Ólafssyni, sem fóru áður fyrir sérhæfðum fjárfestingum Stefnis. Þeir fengu síðan til liðs við félagið einkafjárfestanna Heiðar Guðjónsson, Anda Sveinsson og Birgi Má Ragnarsson.

Kaupin í Dropp eru önnur fjárfestingin sem Aldir stendur að en fyrr í haust festi sjóðurinn kaup á 70 prósenta hlut í rafverktakafyrirtækinu Rafholti ehf. en það velti nærri fjórum milljörðum í fyrra.


Tengdar fréttir

Yfirmaður og sjóðstjórar framtakssjóða Stefnis segja upp störfum

Forstöðumaður og sjóðstjórar framtakssjóða Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa allir sagt upp störfum. Brotthvarf þeirra kemur í kjölfar þess að til skoðunar hafði verið að koma á fót nýju sjálfstæðu félagi, sem myndi annast rekstur sérhæfðu sjóðanna og yrði meðal annars að hluta í eigu sömu starfsmanna, en slíkar hugmyndir fengu ekki brautargengi hjá lífeyrissjóðum, helstu eigendum framtakssjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×