Íslenski boltinn

Ey­þór yfir­gefur KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuttri veru Eyþórs Arons Wöhler hjá KR er lokið.
Stuttri veru Eyþórs Arons Wöhler hjá KR er lokið. vísir/ernir

Sóknarmaðurinn Eyþór Aron Wöhler hefur yfirgefið herbúðir KR. Hann lék 22 leiki með liðinu í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum á síðasta tímabili og skoraði þrjú mörk.

Eyþór gekk í raðir KR frá Breiðabliki skömmu fyrir síðasta tímabil. Hann lék áður með Aftureldingu, ÍA og HK.

Í tilkynningu frá KR segir Eyþór að hann telji farsælast fyrir sig að færa sig um set til að fá að spila meira.

„Ég kveð KR með söknuði, þetta er frábær klúbbur með einstaka stuðningsmenn og ég óska klúbbnum alls hins besta. Ég lagði hart að mér og vildi auðvitað fá meiri spiltíma en ég geri mér grein fyrir því og virði að það er þjálfarinn sem velur liðið og það eru margir góðir knattspyrnumenn í KR sem ég er í samkeppni við. Því þarf ég að stíga eitt skref til baka og fara í klúbb þar sem ég fæ meiri spiltíma og get sannað mig sem alvöru senter. Og það ætla ég að gera,“ sagði Eyþór.

Hann er annar Mosfellingurinn sem yfirgefur KR eftir að síðasta tímabili lauk. Varnarmaðurinn Axel Óskar Andrésson er einnig farinn frá Vesturbæjarliðinu.

Eyþór, sem er 22 ára, hefur leikið 76 leiki í efstu deild og skorað fimmtán mörk. Þá hefur hann leikið fimmtán leiki fyrir yngri landslið Íslands.

KR endaði í 8. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið var í fallbaráttu lengst af sumri en rétti úr kútnum undir lok tímabils og vann síðustu fjóra leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×