Skoðun

Arð­rán um há­bjartan dag?

Sigurjón Þórðarson skrifar

Það er stórmerkilegt að Flokkur fólksins sé eina stjórnmálaaflið sem setur raunverulegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á oddinn. Aðrir flokkar fara með þá fölsku möntru að kerfið sé það besta í heimi, þrátt fyrir að það liggi fyrir að það hafi leitt til minni afla í öllum tegundum og byggðaröskun.

Það er helst að hinir flokkarnir deili um hve veiðigjöldin eigi að vera en sumir vilja hækka eitthvað gjöldin á meðan formaður Framsóknarflokksins boðaði ríkan vilja til þess að lækka gjöldin á „sjávarútvegsdeginum“ sem haldinn var í október sl.

Flokkur fólksins leggur ríka áherslu á að taka á tvöfaldri verðlagningu á helstu útflutningsafurð þjóðarinnar. Sama á við um samþættingu veiða og vinnslu sem birtist m.a. með þeim hætti að verðlagning á makríl sem kemur til skipta til sjómanna á Íslandi er þriðjungurinn af því sem verðið er í Færeyjum. Ef það á að leggja á veiðigjöld þá er augljóst að verðlagningin á fiski þarf að fara fram með gagnsæjum hætti, en að öðrum kosti er og verður verðlagningin alger leikaraskapur.

Á fyrrgreindum sjávarútvegsdegi þá greindi stjórnarformaður eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins hróður frá því að með tæknilegustu vinnslu landsins og samþættri virðiskeðju næðist sá mikli árangur að útflutningsverðmæti á hvert veitt kg. af þorski skilaði þjóðarbúinu 652 kr. Það mátti skilja það á stjórnarformanninum að um væri að ræða kraftaverk sem enginn gæti leikið eftir í heiminum.

Þegar betur var að gáð og skoðað hvað t.d. Færeyingar fá fyrir sinn ferska fisk sem fluttur er út í heilu lagi og án nokkurrar vinnslu, þá kom í ljós að verðið samkvæmt Hagstofu Færeyinga er 20% hærra en fékkst í kraftaverkavinnslunni í besta kerfi í heimi!

Hvað skýrir þennan verðmun?

Það er ekki gott að segja í hverju munurinn liggur en afar ólíklegt er að hráefnið spillist við að fara í gegnum eina fullkomnustu fiskvinnslu heims. Líklegra er að það sé eitt og annað sem mætti lagfæra hvað varðar sölumálin og kanna gaumgæfilega hvað verður eftir af verðmætum í „erlendum“ sölufélögum. Það er stórundarlegt að það sé til fólk sem gefur sig út fyrir að ætla að starfa í umboði þjóðarinnar án þess að taka þessi mál til skoðunar og sé tilbúið að fórna t.d. byggðinni í Grímsey á altari kerfis sem er augljóslega stórgallað.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæminu




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×