Fótbolti

Gummi Tóta og fé­lagar til­búnir að „leggja örkinni“ á Brúnni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson í leik með FC Noah í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Guðmundur Þórarinsson í leik með FC Noah í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Domenic Aquilina/Getty Images

Guðmundur Þórarinsson og félagar í liðinu Noah frá Armeníu mæta á Brúnna, Stamford Bridge, í kvöld í Sambandsdeild Evrópu og mæta þar heimamönnum í Chelsea. Liðið er nefnt eftir sögunni um örkina hans Nóa og er sagt vera tilbúið að „leggja örkinni“ í leik kvöldsins.

The Athletic birtir langa grein um lið FC Noah frá Armeníu. Eflaust voru fæst hér á landi sem vissu nokkuð um tilurð liðsins fyrr en í sumar þegar hinn 32 ára gamli Guðmundur gekk í raðir þess í júlí síðastliðnum.

Félagið var stofnað í Armavir árið 2017 og hét upphaflega FC Artsakh. Aðeins tveimur árum síðar var nafninu breytt og það nafn á sér talsvert lengri sögu enda félagið í dag nefnt í höfuðið á örkinni hans Nóa sem á rætur sínar að rekja til trúarrita sem eru hátt í þúsund ára gömul.

Hvað félagið í dag varðar þá situr það í 4. sæti efstu deildar, tíu stigum á eftir toppliðinu Urartu. Fyrir tímabilið ákvað félagið að sækja fjölda leikmanna í von um að komast þangað sem það er í dag, í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

Ásamt Guðmundi sótti það 15 aðra leikmenn, flesta erlendis frá. Það hefur ekki dugað til að setja gera atlögu að titlinum en liðið er þó komið alla leið í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu. 

Vonast liðið til að skrá sig enn frekar í sögubækurnar sem og að vekja athygli á Armeníu og fótboltanum þar í landi með góðum úrslitum á Brúnni í kvöld. Til þess er það tilbúið að „leggja örkinni“ en hvort það dugi verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×