Enski boltinn

Guardiola segist bara vera með þrettán heil­brigða leik­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola segist aldrei hafa lent í öðru eins og tíma sínum sem knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola segist aldrei hafa lent í öðru eins og tíma sínum sem knattspyrnustjóri Manchester City. Getty/Matt McNulty

Englandsmeistarar Manchester City glíma við mikil meiðsli þessa dagana en liðið datt út úr enska deildabikarnum í gærkvöldi eftir tap á móti Tottenham.

Guardiola lét norska framherjann Erling Braut Haaland sitja allan leikinn á bekknum.

„Við höfðum planað það að hann myndi ekki spila. Leikurinn á móti Southampton var mjög krefjandi og við vildum ekki taka neina áhættu með hann í þessari keppni,“ sagði Pep Guardiola eftir leikinn.

„Hann spilar annars mikið af mínútum og við þurfum á honum að halda um komandi helgi. Ég vildi ekki eyða orkunni hans,“ sagði Guardiola.

Savinho og Manuel Akanji meiddust báðir í leiknum í gærkvöldi. Akanji meiddist strax í upphitun en Savinho fór grátandi af velli um miðjan leik.

„Við erum bara með þrettán heilbrigða leikmenn og erum því í miklum vandræðum. Ég hef aldrei verið í svona stöðu allan þann tíma sem ég hef verið hér,“ sagði Guardiola.

City á leik á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni um helgina en liðið er með eins stigs forskot á Liverpool á toppnum. Það eru síðan fimm stig niður i Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×