Innlent

Tók til baka það sem hún sagði um grunaðan höfuð­paur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Jón Ingi Sveinsson er grunaður höfuðpaur málsins.
Jón Ingi Sveinsson er grunaður höfuðpaur málsins. Vísir/Vilhelm

Kona sem sagði við lögregluna í upphafi apríl að hún hefði fengið fíkniefni frá Jóni Inga Sveinssyni, grunuðum höfuðpaur í Sólheimajökulsmálinu svokallaða, kannaðist ekki við það þegar hún bar vitni í dómsal í dag.

Málið hefur verið kennt við Sólheimajökul sem var nafn á hópspjalli sakborninga á samskiptaforritinu Signal. Sakborningarnir eru á annan tug, en þeir eru flestir grunaðir um skipulagða brotastarfsemi í tengslum við vörslu, sölu og sölu innflutning fíkniefna.

Konan var handtekinn þann 4. apríl með fíkniefni á heimili sínu. Hún sagði við lögreglu að hún hefði keypt þau af Jóni Inga. En fyrir dómi í dag sagðist hún hafa keypt þau af „einhverjum“ á Telegram.

„Þetta var bara, ég veit ekki alveg hvað ég var að hugsa þarna,“ sagði hún og tók fram að þegar hún hefði haldið þessu fram hefði hún verið búin að vaka lengi og verið undir áhrifum amfetamíns.

Hún sagði lögregluna hafa „matað“ sig með nöfnum, og flest hafi hún ekki kannast við, en hún hafi þekkt Jón Inga.

Jón Ingi hefur þegar gefið skýrslu þrisvar í málinu. Í fyrstu skýrslutökunni neitaði hann sök í ákæru sem varðar skipulagða brotastarfsemi varðandi sölu og vörslu fíkniefna. Í annarri skýrslutökunni neitaði hann sök sem varðaði peningaþvætti á mörgum milljónum króna sem eru sagðar hafa verið ágóði úr skipulagðri brotastarfsemi.

Í morgun viðurkenndi hann síðan að hafa átt þátt í innflutningi á fíkniefnum sem komu til landsins með skemmtiferðarskipinu AIDAsol. Hann sagðist þó ekki hafa skipulagt það.


Tengdar fréttir

Segist aldrei hafa skoðað í poka sem innihélt sextán milljónir

Maður á fimmtugsaldri sem er ákærður fyrir peningaþvætti í tengslum við umfangsmikið fíkniefnamál, Sólheimajökulsmálið svokallaða, kannast við að hafa geymt hluti fyrir vin sinn sem er ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi í málinu.

„Ég veit ekki af hverju hann segir ósatt“

Jón Ingi Sveinsson, grunaður höfuðpaur í umfangsmiklu fíkniefnamáli, gaf skýrslu í annað sinn á tveimur dögum í aðalmeðferð Sólheimajökulsmálsins svokallaða. Áætlað er að hann muni gefa skýrslu aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×