Innlent

Víðir og Reynir í eina sæng

Atli Ísleifsson skrifar
Fótboltavöllurinn í Sandgerði verðir skilgreindur sem aðalvöllur hins nýja félags.
Fótboltavöllurinn í Sandgerði verðir skilgreindur sem aðalvöllur hins nýja félags. Reynir Sandgerði

Bæjarráð Suðurnesjabæjar, Knattspyrnufélagið Reynir í Sandgerði og Knattspyrnufélagið Víðir í Garði hafa samþykkt viljayfirlýsingu um stofnun nýs íþróttafélags í sveitarfélaginu. Stefnt er að stofnun hins nýja félags haustið 2026 og að nýr aðalvöllur félagsins verði í Sandgerði en að upphitaður gervigrasvöllur verði lagður á núverandi malarvelli í Garði.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Suðurnesjabæjar sem kom saman til fundar í gær. Þar er Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra veitt umboð til að undirrita viljayfirlýsinguna.

„Bæjarráð lýsir ánægju með frumkvæði og framgöngu íþróttafélaganna með viljayfirlýsingunni. Stofnun og starfsemi eins íþróttafélags í Suðurnesjabæ er mikilvægt framlag við að sameina íbúa sveitarfélagsins í einu samfélagi og til að efla íþróttastarf til framtíðar,“ segir í fundargerðinni.

Magnús Stefánsson er bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.Suðurnesjabær

Aðalvöllur í Sandgerði og gervigras í Garði

Einnig var rætt um uppbyggingu fótbolta mannvirkja í sveitarfélaginu í tengslum við stofnun hins nýja félags. Kemur fram að fótboltavöllurinn í Sandgerði, núverandi Bronsvöllur, verði skilgreindur sem aðalvöllur hjá nýju félagi í Suðurnesjabæ þannig að hann standist kröfur sem keppnisvöllur í efstu stigum íslenskrar knattspyrnu.

„Gerð verði tímasett áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir vegna þessa þannig að völlurinn geti þjónað hlutverki sínu sem heimavöllur nýs íþróttafélags keppnistímabilið 2026.

Nýr upphitaður gervigrasvöllur með flóðlýsingu verði staðsettur á gamla malarvelllinum í Garði og verði skilgreindur sem vetraraðstaða til æfinga og keppni í knattspyrnu. Lögð er áhersla á að framkvæmdir við gervigrasvöll vinnist eins hratt og hægt er, þannig að hann verði tilbúinn til notkunar fyrir veturinn 2025/2026.

Knattspyrnuvöllur í Garði (núverandi Nesfiskvöllur) verði áfram notaður til æfinga og keppni þegar þarf, en þar verði ekki farið í framkvæmdir til að viðhalda eða byggja upp áhorfendamannvirki. Hætt verði að nota æfingasvæði á túni norðvestan við völlinn,“ segir í fundargerðinni.

Fótboltavöllurinn í Sandgerði verðir skilgreindur sem aðalvöllur hins nýja félags.Reynir Sandgerði

Samgöngur verði tryggðar fyrir krakkana

Klefar og aðstaða í húsum félaganna, það er Reynisheimilinu og Víðisheimilinu, munu áfram vera notaðar fyrir fótboltavellina.

„Tryggja þarf góðar og reglulegar samgöngur á milli byggðakjarnanna til að börn og ungmenni eigi greiðan aðgang að æfingum og leikjum sem eru ekki í göngufæri við heimili þeirra.

Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ í samvinnu sveitarfélags og hins nýja íþróttafélags á komandi árum.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir í afgreiðslu sinni fyrirvara um framkvæmdatíma á uppbyggingu gervigrasvallar en engar aðrar athugasemdir við hugmyndir félaganna,“ segir í fundargerðinni.

Spiluðu í efstu deild

Knattspyrnufélagið Víðir í Garði var stofnað árið 1936. Besti árangur Víðis í deildakeppni í karlaflokki er 7. sæti í efstu deild karla árið 1986, en félagið lék í efstu deild frá 1985 til 1987 og aftur 1991. Þá lék liðið úrslitaleik í bikarkeppni KSÍ árið 1987 en beið þá lægri hlut gegn Fram. Meistaraflokkur karla hafnaði í öðru sæti í 3. deild á nýafstöðu tímabili.

Knattspyrnufélagið Reynir Sandgerði var stofnað árið 1935. Meistaraflokkur karla hjá Reyni Sandgerði hafnaði í neðsta sæti 2. deildar á nýafstöðnu tímabili og mun því spila í 3. deild á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×