Erlent

Á­kvörðun Ísrael að banna UNRWA vekur reiði og ótta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðunin þýðir að UNRWA mun ekki geta starfað í Ísrael, né á Vesturbakkanum og Gasa.
Ákvörðunin þýðir að UNRWA mun ekki geta starfað í Ísrael, né á Vesturbakkanum og Gasa. AP/Hassan Eslaiah

Ísraelska þingið samþykkti í gær að banna Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í Ísrael og að skilgreina stofnunina sem hryðjuverkasamtök.

Stofnunin verður nú að hætta starfsemi í landinu innan 90 daga en ákvörðunin um að skilgreina hana sem hryðjuverkasamtök hefur það í för með sér að ísraelsk yfirvöld munu ekki eiga í neinu samstarfi við hana.

Þetta þýðir að til viðbótar við að höfuðstöðvum UNRWA í Jerúsalem verður lokað þá verður líklega ekkert af frekari neyðaraðstoð stofnunarinnar á Gasa, þar sem forsvarsmenn hennar og yfirvöld sem fara með umferð í gegnum Rafah mega ekki lengur eiga samstarf.

Þannig verða til að mynda ekki gefin út fleiri starfsleyfi til starfsmanna UNRWA né hægt að skipuleggja flutning og dreifingu neyðargagna á svæðinu.

Ákvörðunin hefur vakið hörð viðbrögð og menn meðal annars varað við því að annarri neyðaraðstoð sé ekki til að dreifa á Gasa, þar sem fjöldi fólks býr við afar bágar aðstæður og fæðuskort.

Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri UNRWA, segir ákvörðunina fordæmalaus og hættulegt fordæmi.

„Þessi frumvörp munu aðeins ýta undir neyð Palestínumanna, sérstaklega í Gasa þar sem fólk hefur búið við helvíti í meira en ár,“ sagði hann.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa lýst yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin. 

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt Ísraela til að standa við skuldbindingar sínar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og sagt að ekki sé hægt að fara á svig við þær með því að breyta innlendum lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×