Innlent

Odd­ný ætlar ekki aftur fram

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Vísir/Egill

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, mun ekki sækjast eftir sæti á lista flokksins í komandi alþingiskosningum.

Oddný greinir frá þessu í myndbandi á Facebook

„Ég hef verið að melta þessa ákvörðun með mér og fjölskyldu minni lengi, og þetta er niðurstaðan. Þetta verður mitt síðasta kjörtímabil.“

Hún þakkar þeim sem hvatt hafa hana til að bjóða sig fram að nýju. „Og þakka líka fyrir stuðning og samstarf í þau sextán ár sem ég hef setið á þingi. En ég er ekki að kveðja núna, ég mun sitja sem þingmaður fram á kjördag, en þetta er mín niðurstaða,“ segir Oddný að lokum. 

Oddný tók sæti á þingi árið 2009 og sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem fjármálaráðherra 2011–2012 og iðnaðarráðherra 2012.

Hún tók við sem formaður flokksins í júní 2016 en sagði af sér eftir kosningar í október sama ár eftir að flokkurinn hafði beðið afhroð í kosningunum og hlotið 5,7 prósent fylgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×