Innlent

„Þetta er ein­hver leikur sem menn á­kváðu að spila“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Vísir/Vilhelm

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á hendur Kennarasambandsins ekki munu hafa áhrif á boðuð verkföll kennara.

„Það að menn velji að fara þessa leið, að skoða einhvers konar formgallakæru, hefur ekki áhrif á verkföllin. Það sem hefur áhrif á þau er hvernig okkur mun ganga í húsakynnum Ríkissáttasemjara næstu daga að leysa úr því verkefni að gera kjarasamning fyrir íslenska kennara,“ sagði Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Greint var frá stefnu SÍS í dag, en sambandið telur boðun verkfalls í fjölda skóla ólögmæta þar sem engin kröfugerð liggi fyrir í kjaradeilunni.

Magnús segir að kröfugerð hafi verið algjörlega ljós. „Við höfum verið að líta til samkomulags sem var gert árið 2016 og hefur ekki verið fullnustað, og snýr að jöfnum launum milli markaða, háskólamenntaðra sérfræðinga í kennarastéttinni og sérfræðinga á almennum markaði.“

„Þetta er einhver leikur sem menn ákváðu að spila. Við tökum bara til varna. Það er leitt að tíminn fari í þetta frekar heldur en að einbeita sér að verkefninu.“

Magnús segir að sér þyki leiðinlegt hvernig launagreiðendur noti stefnur fyrir félagsdóm í deilum sem þessum.

„Mér finnst það sorglegt að launagreiðendur séu farnir að líta á þetta sem einhvers konar útspil í kjaraviðræðum. Þá er ég bara að tala um það almennt að vísa í félagsdóm sjálfsögðum rétti launafólks að geta nýtt aðgerðir eins og verkfall til að skýra og styrkja sinn málsstað. Mér finnst í rauninni bara sorglegt að við séum á þeirri leið.“

Að sögn Magnúsar er enn langt á milli, en hann segist vera bjartsýnn og að verið sé að vinna að því að komast að samtalsgrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×