Innlent

Ríkis­starfs­menn ofmetnir um fimm þúsund

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bjarni Benediktsson greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni.
Bjarni Benediktsson greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni. Vísir/Vilhelm

Fimm þúsund manns skráðir í fæðingarorlof voru ranglega taldir sem ríkisstarfsmenn í opinberum gögnum Hagstofunnar. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir villur sem þessar í opinberum gögnum vera hið versta mál og vill bæta hagskýrslugerð.

Bjarni greinir frá fimm þúsund manna ofmatinu á Facebook, en tekur fram að gögnin komi fram í sérvinnslu sem hann hafi óskað eftir í framhaldi af opinberum tölum Hagstofunnar um umsvif á vinnumarkaði í júlí.

„Undanfarið ár hefur tæplega 90% fjölgunar á vinnumarkaði raunar verið í einkageiranum, þvert á það sem reglulega er haldið fram í opinberri umræðu. Hlutfallsleg fjölgun í einkageiranum og hjá hinu opinbera er nokkurn veginn sú sama - um 1%,“ skrifar hann.

„Villur í opinberum gögnum eru hið versta mál, ekki síst þegar þær verða grundvöllur umræðu um útþenslu hins opinbera sem enginn fótur reynist fyrir. Eða þegar hagvöxtur er vanmetinn um það sem nemur hagvexti í eðlilegu árferði.“

Bjarni segir mikilvægt að fjölmiðlar og almenningur sýni stjórnvöldum aðhald þegar kemur að útþenslu hins opinbera. Aðhald í ríkisrekstrinum sé yfirlýst forgangsmál stjórnvalda, til að styðja við áframhaldandi lækkun verðbólgu og vaxta.

„En þegar gögnin standast ekki skoðun, þá gerir umræðan það ekki heldur.“

Bjarni segir að á þessum grundvelli hafi hann komið af stað vinnu til að bæta opinbera hagskýrslugerð.

„Röng gögn geta nefnilega verið verri en engin og þangað viljum við ekki fara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×