Erlent

Hugðust ráðast á fjölda fólks á kjör­dag og deyja píslar­dauða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland og Christopher Wray, forstjóri Alríkislögreglunnar, tjáðu sig um málið í gær.
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland og Christopher Wray, forstjóri Alríkislögreglunnar, tjáðu sig um málið í gær. epa/Jim Lo Scalzo

Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum hafa handtekið mann frá Afganistan, sem var búsettur í Oklahoma, í tengslum við fyrirhugaða hryðjuverkaárás á kjördag, 5. nóvember.

Hugðist hann fremja árásirnar í nafni Ríkis íslam.

Nasir Ahmad Tawhedi, 27 ára, hefur verið ákærður fyrir að leggja á ráðin um árásina og aflað skotvopna. Þá hefur hann verið ákærður fyrir að freista þess að aðstoða Ríki íslam.

Tawhedi er sagður hafa skipulagt árásina í samstarfi við mág sinn, sem er ólögráða. Hann er sagður hafa játað í yfirheyrslum að þeir hafi haft í hyggju að láta til skarar skríða í fjölmenni þegar Bandaríkjamenn kjósa næsta forseta.

Þeir hafi gert ráð fyrir að deyja píslardauða.

Tawhedi er sagður hafa verið kominn nokkuð langt með áætlun sína en hann hafði meðal annars hafið sölu á eignum fjölskyldunnar til að standa straum af kostnaðinum við að senda hana og koma henni fyrir í Afganistan.

Tawhedi var handtekinn eftir að hann setti sig í samband við heimildarmann FBI í Oklahoma, sem sagðist hafa selt honum tvo AK-47 riffla og skotfæri. Við rannsókn málsins kom í ljós að Tawhedi hafði átt í samskiptum við einstakling sem hann taldi millilið fyrir Ríki íslam.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×