Enski boltinn

Onana haldið oftast hreinu

Sindri Sverrisson skrifar
André Onana hefur fjórum sinnum haldið hreinu það sem af er leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
André Onana hefur fjórum sinnum haldið hreinu það sem af er leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Simon Stacpoole

Á meðan að flestar fréttir af Manchester United snúa að slæmu gengi liðsins og stöðu knattspyrnustjórans Eriks ten Hag þá hefur markvörðurinn André Onana reynst ákveðið ljós í myrkrinu.

Þannig var staðan alls ekki fyrir ári síðan, þegar Onana átti í ýmis konar byrjunarörðuleikum sem arftaki Spánverjans David de Gea.

Nú hefur þessi 28 ára Kamerúni hins vegar haldið marki United hreinu í fjórum af fyrstu sjö deildarleikjum tímabilsins, eða oftast allra markvarða ensku úrvalsdeildarinnar.

Onana er því með forystuna í baráttunni um gullhanskann, sem sá markvörður fær sem oftast heldur hreinu á tímabilinu, en næstir á eftir honum eru Alisson hjá Liverpool og David Raya hjá Arsenal sem haldið hafa hreinu í þremur heilum leikjum hvor.

Liverpool hefur samt fengið langfæst mörk á sig, eða aðeins tvö, og Alisson spilað fjóra leiki án þess að fá á sig mark. Hann varð hins vegar að fara meiddur af velli í einum þeirra og Vitezlav Jaros kom inn á í hans stað. Caoimhin Kelleher hélt svo hreinu í eina leiknum sem hann hefur spilað.

Raya vann gullhanskann á síðustu leiktíð, þegar hann hélt hreinu í sextán leikjum, eftir að De Gea hafði hlotið gullhanskann á lokaári sínu með United, þegar hann hélt hreinu í sautján leikjum.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano segir að þjálfarateymi United sé í skýjunum með þróun Onana, á annarri leiktíð hans eftir komuna frá Inter.

Næstu leikir Onana með United eru gegn Brentford 19. október og við Fenerbahce í Evrópudeildinni fimm dögum síðar. Nú taka hins vegar við tveir landsleikir með Kamerún, báðir gegn Kenýa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×