Körfubolti

Þurfti að leita til tann­læknis eftir vænan oln­boga

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður er eflaust að panta sér tannlæknatíma þegar myndin er tekin.
Sigurður er eflaust að panta sér tannlæknatíma þegar myndin er tekin. Aðsend

Sigurður Pétursson, leikmaður Keflavíkur í Bónus deild karla í körfubolta, þurfti að leita á náðir neyðarþjónustu tannlækna eftir leik liðsins við Álftanes í Forsetahöllinni á fimmtudagskvöldið. Hann var illa útleikinn eftir að hafa fengið olnboga á kjammann.

Um algjört óviljaverk var að ræða þegar Dimitrios Klonaras, leikmaður Álftaness, rak olnbogann framan í Sigurð er þeir stukku upp í frákast í leik liðanna. Klonaras meiddist á olnboga en meiðsli Sigurðar voru öllu alvarlegri.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum losnaði framtönn hans allhressilega, en brotnaði þó ekki. Að auki hlaut Sigurður vænan skurð á báðar varir. Hann þurfti þá eftir leik á fimmtudagskvöld að finna sér tannlæknaþjónustu til að skorða tönnina á nýjan leik.

Þrátt fyrir áfallið bar Sigurður sig vel og ætti að vera klár í slaginn þegar Keflavík fer austur á Egilsstaði að sækja Hattarmenn heim á fimmtudaginn næsta. Bæði lið unnu fyrsta leik sinn í deildinni.

Sigurður var illa útleikinn eftir höggið.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×