Menning

„Hrátt há­þróað krass, langt leitt krot“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Geoffrey og Dýrfinna leiða saman hesta sína í „Afbyggingu“ þar sem þau takast á við borgarlandslagið, menningarlandslagið og ferðalag þeirra fram til þessa.
Geoffrey og Dýrfinna leiða saman hesta sína í „Afbyggingu“ þar sem þau takast á við borgarlandslagið, menningarlandslagið og ferðalag þeirra fram til þessa.

Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams og Dýrfinna Benita Basalan standa fyrir sýningunni „Afbygging/Deconstruction“ sem opnar í dag í Gallery Port. Þau eru bæði þekktari fyrir umsvif sín í íslensku tónlistarlífi en leiða hér saman hesta sína í blýantsteiknaðri afbyggingu á borgarlandslaginu.

Dýrfinna er þekktust fyrir tónlistarferil sinn en hún hefur gefið út tvær plötur og fjölda singúla undir nafninu Countess Malaise. Hún er með BA-gráðu í myndlist og hefur opnað einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum síðustu ár.

Geoffrey er eigandi Priksins, rekur útgáfuna Sticky Records og hefur komið víða við í menningarlífi Reykjavíkur. Hins vegar er hann með bakgrunn í grafískri hönnun og götulist og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga. 

Samvinna þeirra er því forvitnileg fyrir margar sakir og ræddi blaðamaður við Geoffrey um sýninguna og samstarfið.

Þú er þekktastur fyrir rekstur á Prikinu en færri vita af myndlistinni.  Hefurðu unnið að henni samhliða öllu hinu eða ertu að fókusera meira á hana núna?

Geoffrey hefur ásamt Finna á Prikinu orðið að eins konar samnefnara við skemmtistaðinnvísir/ívar fannar

„Ég er alltaf á fullu í mínum daglegu störfum sem snúa að rekstri veitingahúsa auk viðburðarhalds þeim tengdum og útgáfufyrirtækisins Sticky. En hef samhliða því verið að skapa mín eigin verk og þróa minn myndheim. 

Undanfarin tvö ár ákvað ég að ýta mér meira út í skipulagt sýningarhald og stúdíóvinnu, og er sýningin okkar skref á þeirri vegferð,“ segir Geoffrey.

Mikill heiður að vinna með upprennandi súperstjörnu

Hvað kemur til að þið Dýrfinna ákveðið að gera myndlist saman?

„Við Dýrfinna höfum þekkst í meira en áratug og unnið áður saman að viðburðarhaldi, en aldrei við nein sértæk verkefni hingað til. Við sýndum bæði á tveimur samsýningum, „Undir áhrifum Alfreðs Flóka“ í Ámilli Gallery og „Sumargestum“ Gallery Port, í aðdraganda vinnufasa okkar.

Dýrfinna hefur vakið athygli undanfarin ár.Aðsend

Ég nálgaðist Dýrfinnu með vinnudagsetningu undir sýningarhald núna í október, og Gallery Port-menn studdu okkur ríkulega til samstarfs. Dýrfinna er auðvitað upprennandi súperstjarna í íslenskri myndlist og tel ég það vera mikinn heiður að sýna með henni.“

Dýrfinna hefur verið að rappa og þú með Prikið og í tónlistarútgáfu. Liggja þræðir milli tónlistarinnar og myndlistarinnar?

„Við teljum að samtal okkar beggja um víðan völl í gegnum tíðina þvert á listastefnur, hvort sem það sé í tónlist eða öðru, komi auðvitað beint fram í þeim verkum sem við gerum. Þetta spilar allt saman, bókstaflega og myndmálslega.“

Heiðarleg tilraun til að ramma inn veggjalist

Afbygging er þekkt aðferð úr heimspeki og bókmenntafræði. Hvað er verið að afbyggja í sýningunni?

„Hið síbreytilega borgarlandslag, og sú tálsýn sem minning hvers manns af mismunandi borg sem er í örum vexti og sífellt að breytast, var okkur hugleikin í titli sýningarinnar. Við vildum skapa ákveðin hughrif með orðinu, sem einnig er til þess fallið að draga fram mótsagnir og mynda nýjar tengingar.“

Hér má sjá plakatið fyrir sýninguna.

Plakat sýningarinnar er í graffleturgerð. Kemur slík list við sögu? Og hvers konar verk eru þetta?

„Við erum að sýna mest blýantsteikningar. Veggjalist er eitt af viðfangsefnum þessar sýningar og atriði sem við tvö höfum bakgrunn úr. Teikningar okkar eru framsettar á formi sem er hrátt háþróað krass, langtleitt krot. 

Það er aðallega í verkum Dýrfinnu þar sem tenging við borgarlandslagið og algengar leturtýpur sem hafa birst á veggjum borgarinnar koma fram. Í veggjalist býr ákveðið frumafl sem við gerum hér heiðarlega tilraun til að ramma inn.“

Myndasaga, gjörningar og hin víðfræga jólasýning í Ásmundarsal

Hvað tekur við eftir Afbyggingu og hafið þið hug á að vinna meira saman?

„Sjálfur er ég að vinna að nýrri myndasögu og með nokkrar samsýningar á næsta leyti auk annarra skapandi verkefna sem ekki er vert að tilkynna að svo stöddu. Dýrfinna sýnir næst í Gerðarsafni á nýju ári auk þess að taka þátt í hinni víðfrægu jólasýningu Ásmundarsals. Einnig eru gjörningar orðnir fyrirferðamiklir í hennar listsköpun og margir slíkir á næsta strái. 

Við munum bókað vinna að fleiri verkefnum saman, og höfum nú þegar ákveðið nokkur skref í þá átt. Enda samstarf okkar í kringum þessa sýningu draumi líkast og óx vinátta okkar um mörg númer í ferlinu öllu,“ segir Geoffrey að lokum.

Myndlistarsýningin „Afbygging/Deconstruction“ opnar í dag klukkan 15 í Gallery Port í Hallgerðargötu 19-23 við Kirkjusand. Sýningin stendur yfir til 26. október næstkomandi og er opið miðvikudaga til föstudags, milli 12-17 og laugardaga frá 12-16.

Áhugasamir geta einnig kíkt í Sjoppuna sem er minna sýningarrými á baksvæði Portsins. Þar opnar í dag sýningin „Þetta verður næs þegar það er næs” eftir Stein Loga Björnsson en hún stendur einnig yfir til 26. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×