Erlent

Minnst sjö­tíu í valnum eftir á­rás glæpa­manna

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk á flótta í Haítí.
Fólk á flótta í Haítí. AP

Að minnsta kosti sjötíu manns liggja í valnum eftir að glæpamenn sem tilheyra Gran Grif genginu á Haítí gengu berserksgang á götum Pont-Sonde. Glæpamennirnir gengu um bæinn og skutu fólk að virðist af handahófi.

Glæpamenn kveiktu í að minnsta kosti 45 húsum og 34 bílum á götum bæjarins.

AP fréttaveitan hefur eftir talskonu hjálparsamtaka að lík liggi á víð og dreif um Pont-Sondé eftir árásina í gær og að margir virðist hafa verið teknir af lífi með skoti í höfuðið.

Í yfirlýsingu frá mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna segir að um tíu konur og þrjú ungabörn séu meðal þeirra sem voru myrt. Að minnsta kosti sextán eru sagðir hafa særst.

Um er að ræða eitthvað umfangsmesta ódæðið af þessu tagi á þessu svæði í Haítí á undanförnum árum. Árásir sem þessi þykja nokkuð tíðar í Port-au-Prince, höfuðborga Haítí, sem er að mestu stjórnað af glæpagengjum.

Yfirleitt tengjast árásirnar baráttu glæpagengja um yfirráðasvæði og beinast þá að íbúum á yfirráðasvæði óvinagengja. AP segir hins vegar að Pont-Sondé sé þegar á yfirráðasvæði Gran Grif og liggur tilefni árásarinnar ekki fyrir.

Eins og með mörg önnur gengi í Haítí, var Gran Grif í raun stofnað af þingmanni. Prophane Victor vopnaði hópa manna á svæðinu til að tryggja endurkjör sitt og yfirráð yfir svæðinu, fyrir um áratug.

Glæpagengi í Haítí hafa lengi verið studd af mismunandi ráðamönnum og hafa í staðinn stutt þá.

Mikil óreiða hefur ríkt í Haítí frá því Jovenel Moise, forseti, var myrtur árið 2021. Mosie var einkar óvinsæll forseti og var sakaður um einræðistilburði. Degi áður en hann dó skipaði hann sinn sjöunda forsætisráðherra á kjörtímabili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×