Innlent

Féll af steini við Selja­lands­foss

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maður féll af steini við Seljalandsfoss. Myndin er úr safni.
Maður féll af steini við Seljalandsfoss. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningar um tvö slys með stuttu millibili seinni partinn í gær. Annars vegar féll ferðamaður af steini við Seljalandsfoss. Hins vegar féll einstaklingur af þaki húss í Rangárþingi.

Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að báðir hafi þurft á aðhlynningu að halda á sjúkrahúsi. 

Lögregla mat að þeir væru ekki í lífshættu, en ekki er vitað um líðan einstaklinganna að svo stöddu.

Í fyrradag var síðan tveggja bíla árekstur skammt vestan við Selfoss. Einstaklingar úr báðum bílum þurftu á aðhlynningu heilbrigðisstofnunar að halda.

Greint var frá þessum málum í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi. Þar er einnig greint frá því að fimm ökumenn hafi verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Sá sem hafi ekið hraðast hafi verið á 165 kílómetra hraða á Suðurlandsvegi, vestan við Hellu.

Þá hafi einn ökumaður verið stöðvaður ekki með tilskilin réttindi til aksturs og annar stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Jafnframt hafi tveir ökumenn atvinnutækja verið stöðvaðir þar sem þeim vantaði ökumannskorts í ökurita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×