Fótbolti

Mar­tínez dæmdur í tveggja leikja bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spilar ekki næstu tvo leiki Argentínu.
Spilar ekki næstu tvo leiki Argentínu. EPA-EFE/JUSTIN LANE

Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa og Argentínu, mun missa af næstu tveimur leikjum landsliðs síns eftir að vera dæmdur í tveggja leikja bann fyrir dónalega hegðun.

Um er að ræða atvik sem áttu sér stað í leikjum Argentínu gegn Síle og Kólumbíu í undankeppni HM 2026.

Þann 6. september síðastliðinn vann Argentína 3-0 sigur á Síle og fagnaði Martínez með því að taka eftirlíkingu af Suður-Ameríkubikarnum, Copa América, og halda honum upp við klof sitt. Fagnaði hann eins eftir að Argentína varð heimsmeistari síðla árs 2022.

Eftir 2-1 tap gegn Kólumbíu þann 10. september sló Martínez til myndatökumanns sem nálgaðist hann eftir tapið.

Knattspyrnusamband Argentínu hefur gefið út að það sé ósammála banninu en Martínez beri ábyrgð á gjörðum sínum. Markvörðurinn missir af leikjum Argentínu gegn Venesúela og Bólivíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×