Innlent

Nemandinn sem stakk Ingunni á­frýjar dómi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ingunn hlaut alls tuttug sár í árásinni. Sjúkraliði sem kom á vettvang sagði fyrir dómi að hann hefði ekki búist við því að hún lifði af.
Ingunn hlaut alls tuttug sár í árásinni. Sjúkraliði sem kom á vettvang sagði fyrir dómi að hann hefði ekki búist við því að hún lifði af. Ingunn Björnsdóttir

Lyfjafræðinemi sem stakk Ingunni Björnsdóttur, dósent við Oslóarháskóla, ítrekað hefur áfrýjað hluta dóms sem hann hlaut fyrir verknaðinn. Hann vill fá öryggisvistun sinni hnekkt og dómi vegna árásar á samkennara Ingunnar. 

Dómstóll dæmdi nemandann til sjö og hálfs árs af svokallaðri öryggisvistun fyrir tilraun til manndráps og sérlega hættulega líkamsárás fyrr í þessum mánuði. Refsingin getur í reynd verið ótímabundin þar sem forsenda þess að þeim dæmda sé sleppt er að hann svari meðferð og hann sé ekki lengur talinn hættulegur samfélaginu.

Lögmaður nemandans segir norska fjölmiðlinum Khrono að hann hafi nú áfrýjað hluta dómsins. Hann sækist ekki eftir að fá lengd refsingarinnar hnekkt heldur öryggisvistuninni. Þá vill hann áfrýja hluta dómsins sem varðaði árásina á samkennara Ingunnar sem reyndi að koma hennni til varnar.

Hann hafi óvart stungið samkennaranna og ekki sé hægt að sakfella menn fyrir að valda líkamstjóni af stórfelldri vanrækslu. Þá hafi samkennari Ingunnar ekki særst alvarlega í atlögunni. Þó að nemandinn sé ósammála því að árásin á Ingunni hafi verið tilraun til manndráps ætli hann ekki að áfrýja þeim hluta dómsins þar sem hann sé ekki vongóður um að fallist yrði á sjónarmið hans um það.

Iðraðist einskis

Árásin átti sér stað þegar nemandinn fundaði með Ingunni og samstarfskonu hennar vegna lyfjafræðiprófs sem hann féll á. Þegar Ingunn ætlaði að ljúka fundinum réðst maðurinn á hana, skar á háls hennar og stakk hana ítrekað. Hann særði samstarfskonuna einnig með hnífnum áður en aðrir starfsmenn skólans náðu að skarast í leikinn.

Sjúkraliði sem kom fyrir dóminn sagði að hann hefði ekki hugað Ingunni líf. Hún hlaut alls tuttugu sár í árásinni, sjö skurði og þrettán stungusár.

Fyrir dómi sagðist maðurinn iðrast einskis. Honum hefði verið uppsigað við Ingunni sem hann taldi standa í vegi þess að hann næði árangri í námi. Hann hefði viljað ryðja henni úr vegi tímabundið til þess að hann gæti tekið prófið sem hann féll á aftur.

Nemandinn, sem er á einhverfurófi, var ekki talinn hafa verið veikur á geði þegar hann framdi verknaðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×