Innlent

Varla komist í kast við lögin fyrr en hann flutti kókaín til landsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Albert Lleshi hefur hlotið tveggja ára og átta mánaða langan fangelsisdóm fyrir að flytja rétt rúm tvö kíló af kókaíni til landsins.

Í ákæru segir að hann hafi falið efnin í farangurstöksu sem hann kom með til landsins með flugi til Keflavíkurflugvallar frá Þýskalandi þann 28. október í fyrra.

Styrkleiki efnanna hafi verið áttatíu prósent, og þau ætluð til söludreifingar hér á landi.

Maðurinn játaði sök og gerði grein fyrir persónulegum högum sínum fyrir dómi. Hann sagðist hafa búið hér á landi í tíu á rog aldrei komist í kast við lögin að frátöldu umferðarlagabroti árið 2021.

Albert sagðist iðrast þess að hafa tekið þátt í fíkniefnainnflutningnum og sagðist hafa látið tilleiðast að taka þátt í honum. Sjálfur hefði hann ekki átt efnin eða fjármagnað kaupin, heldur verið í hefðbundnu hlutverki burðardýrs.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að ekki verði litið fram hjá því að maðurinn hefði flutt til landsins mikið magn af sterku kókaíni. Dómurinn áætlaði að söluhagnaður af kókaíninu hefði numið um eða yfir fjörutíu milljónum króna. Þó maðurinn hefði einungis haft hlutverk burðardýrs hafi hans þáttur þó verið nauðsynlegur fyrir brotið.

Líkt og áður segir hlaut Albert Lleshi tveggja ára og átta mánaða fangelsisdóm. Þá er honum gert að greiða tæplega 1,4 milljónir í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×