Erlent

Hótar að beita kjarn­orku­vopnum gegn á­rás með hefð­bundnum vopnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússar segjast nú munu beita kjarnorkuvopnum til að koma í veg fyrir árásir með hefðbundnum vopnum.
Rússar segjast nú munu beita kjarnorkuvopnum til að koma í veg fyrir árásir með hefðbundnum vopnum. AP/Sputnik/Alexander Kazakov

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði á fundi með öryggisráði sínu í gær að Rússar myndu íhuga að beita kjarnorkuvopnum ef þeim bærust áreiðanlegar upplýsingar um yfirvofandi loftárás með hefðbundnum vopnum.

Þá sagði hann að kjarnorkuveldi sem ætti aðild að slíkri árás með stuðningi við árásaraðilann yrði álitin þátttakandi í árásinni. Hið pólitíska og hernaðarlega landslag væri að breytast og taka þyrfti tillit til þess.

Ummæli Pútín eru viðvörun til Úkraínu og bandamanna þeirra en Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti og aðrir ráðamenn landsins hafa kallað mjög eftir því að Úkraínumenn fái að nota langdræg vopn frá Bandaríkjunum og Bretum til að gera árásir á skotmörk í Rússlandi.

Pútín sagði fyrr í þessum mánuði að slík heimild til handa Úkraínu jafngilti stríðsyfirlýsingu af hálfu Vesturlanda og að Rússar yrðu til neyddir til að grípa til „viðeigandi ráðstafanna“.

Andriy Yermak, einn helsti ráðgjafi Selenskís, gaf lítið fyrir ummæli Pútín í gær og sagði stöðuna einfaldlega þá að kjarnorkuvopn væru það eina sem Rússar gætu enn notað til að hóta umheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×