Íslenski boltinn

Mörkin úr Bestu: Sjáðu perlur Gylfa og Ísaks

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði glæsilegt mark gegn ÍA í gærkvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði glæsilegt mark gegn ÍA í gærkvöld. vísir/Anton

Gylfi Þór Sigurðsson og Ísak Snær Þorvaldsson skoruðu glæsileg mörk í gærkvöld þegar fyrstu leikirnir í efri hluta Bestu deildarinnar í fótbolta fóru fram.

Valur gerði 2-2 jafntefli við Stjörnuna þrátt fyrir erfiða stöðu heimamanna í hálfleik. Hilmar Árni Halldórsson kom Stjörnunni í 1-0 með góðu skoti eftir frábæran sprett Óla Vals Ómarssonar, og Adolf Daði Birgisson jók muninn í 2-0. Albin Skoglund minnkaði muninn eftir undirbúning Patrick Pedersen en það var svo Gylfi sem jafnaði metin upp á eigin spýtur, með frábæru skoti.

Klippa: Mörk Vals og Stjörnunnar

Í Kópavogi vann Breiðablik 2-0 sigur gegn ÍA. Staðan var markalaus fram í seinni hálfleik en þá átti Davíð Ingvarsson fyrirgjöf sem fór af Johannesi Vall og í mark ÍA. Ísak Snær skrúfaði svo boltann frábærlega í slá og inn undir lok leiks, og innsiglaði sigur Blika. Breiðablik er þar með með þriggja stiga forskot á Víkinga sem eiga til góða leik við FH á morgun.

Klippa: Mörk Breiðabliks gegn ÍA

Á sunnudag gerðu KR og Vestri 2-2 jafntefli í Vesturbænum. Atli Sigurjónsson kom KR yfir með skalla rétt fyrir hálfleik. Andri Rúnar Bjarnason jafnaði metin á 65. mínútu en Benoný Breki Andrésson kom KR yfir á nýjan leik. Vestri jafnaði metin svo korteri fyrir leikslok og er markið skráð á Gustav Kjeldsen, þó að skallinn fari svo af Jóni Arnari Sigurðssyni í netið.

Klippa: Mörk KR og Vestra

Fram vann svo 2-0 sigur gegn Fylki sem situr á botni deildarinnar, og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik. Alex Freyr Elísson skoraði það fyrra með frábæru skoti í stöng og inn, og Magnús Þórðarson vann boltann af vörn Fylkis og skoraði það seinna.

Klippa: Mörk Fram gegn Fylki

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×