Erlent

Önnur vopnageymsla í ljósum logum í Rúss­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar á svæðinu fönguðu stórar sprengingar á mynd í nótt og í morgun.
Íbúar á svæðinu fönguðu stórar sprengingar á mynd í nótt og í morgun.

Önnur stór vopnageymsla í Rússlandi stendur í ljósum logum eftir árás Úkraínumanna í nótt. Stórar sprengingar urðu í vopnageymslunni í nótt og hafa fleiri sést í morgun.

Árásin var gerð í bænum Tikhoretsk í Krasnodar Krai-héraði í Rússlandi og er þetta í annað sinn á nokkrum dögum sem miklar sprengingar verða í vopnageymslu í Rússlandi. Líklegast var notað við dróna en hversu marga og hverskonar dróna notast var við liggur ekki fyrir.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir ríkisstjóra Krasnodar Krai að tveir drónar hafi verið skotnir niður og eldar hafi kviknað þegar brak úr þeim féll til jarðar. Það er það sama og sagt var fyrir nokkrum dögum þegar umfangsmikil drónaárás var gerð í Tver-héraði í Rússlandi.

Úkraínumenn eru sagðir hafa gert aðra árás á vopnageymsluna í Tver í nótt.

Verið er að flytja íbúa af svæðinu við vopnageymsluna í Krasnodar Krai en enn sem komið er hafa engar fregnir borist af mannfalli, samkvæmt frétt RIA.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að 101 dróni frá Úkraínu hafi verið skotinn niður yfir Rússlandi í nótt.

Blaðamaður Wall Street Journal segir fregnir hafa borist af því að Rússar hafi geymt eldflaugar frá Norður-Kóreu í Tikhoretsk en sömu fregnir bárust einnig af vopnageymslunni í Tver.

Sprengingar hafa enn heyrst í vopnageymslunni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×