Handbolti

Arf­taki Kristjáns ó­vænt hættur

Sindri Sverrisson skrifar
Glenn Solberg er hættur að þjálfa Svía.
Glenn Solberg er hættur að þjálfa Svía. EPA-EFE/FABIAN BIMMER

Svíar eru í leit að nýjum landsliðsþjálfara í handbolta eftir að Glenn Solberg tilkynnti óvænt að hann væri hættur, tveimur árum fyrir lok samningstíma.

„Það er mjög krefjandi að vera landsliðsþjálfari,“ sagði hinn 52 ára gamli Solberg sem náði frábærum árangri sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar.

Norðmaðurinn tók við af Kristjáni Andréssyni árið 2020 og undir hans stjórn vann Svíþjóð til silfurverðlauna á HM í Egyptalandi árið 2021, og svo fyrstu gullverðlaunanna í tuttugu ár á EM í Ungverjalandi ári síðar. Kórónuveirufaraldurinn setti sterkan svip á bæði mótin.

Á Evrópumótinu í janúar síðastliðnum unnu Svíar svo bronsverðlaun, en þeir féllu svo úr leik í 8-liða úrslitum á Ólympíuleikunum í París í sumar, rétt eins og í Tókýó fyrir þremur árum.

„Ég finn það núna að það er tími til að snúa sér að öðru. Þetta hafa verið fimm annasöm ár með sex stórmótum, marga daga í burtu í landsliðsverkefnum og þar að auki hef ég varið miklum tíma í að ferðast og hitta leikmennina hjá þeirra félagsliðum. Þetta hefur verið spennandi og ótrúlega gefandi en núna þarf ég hlé til að finna hvað ég vil gera næst,“ sagði Solberg.

Sænska handknattleikssambandið þarf nú að finna nýjan landsliðsþjálfara sem fyrst en næsta stórmót er í janúar þegar HM fer fram í Danmörku, Noregi og Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×