Innlent

Fundu lík karl­manns í Reynis­fjalli

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrlan Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Þyrlan Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Lík af karlmanni fannst í Reynisfjalli nú í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út þar sem ekki var hægt að nálgast líkið langleiðina. Lögregla getur ekki staðfest að líkið sé af manni sem leitað hefur verið að undanfarna daga að svo stöddu.

Brynja Sverrisdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að líkið hafi fundist á ellefta tímanum í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti það í fjallið en því verður flogið til Reykjavíkur þar sem tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar við rannsókn. 

Leitað hefur verið að Illes Benedek Incze, ungverskum ríkisborgara búsettum í Vík, frá því á mánudag. Síðast sást til hans um klukkan þrjú aðfararnótt mánudagsins 16. september. Brynja segir að ekki sé hægt að staðfesta strax hvort að líkið sem fannst sé af honum.

Björgunarsveitir og Landhelgisgæslan hafa tekið þátt í leitinni að Incze síðustu daga. Drónar og sporhundar hafa verið notaðir við leitina en þyrla Gæslunnar flaug einnig yfir svæðið í dag. Hún var svo kölluð aftur út í kvöld eftir að talið var að sést hefði í manneskju í Reynisfjalli.

Fréttin var uppfærð eftir að staðfest var að lík hefði fundist í Reynisfjalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×