Fótbolti

PSG gert að gera upp risaskuld sína skuld við Mbappé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé hefur unnið málið fyrr laganefnd frönsku deildarinnar en Paris Saint Germain ætlar lengra með málið.
Kylian Mbappé hefur unnið málið fyrr laganefnd frönsku deildarinnar en Paris Saint Germain ætlar lengra með málið. Getty/Harry Langer

Laganefnd frönsku deildarinnar hefur tekið fyrir mál Paris Saint-Germain og Kylian Mbappé. Niðurstaðan er skýr. Franska félagið þarf að borga sína skuld.

Mbappé yfirgaf PSG í sumar en eftir að hann gaf það út að hann yrði ekki áfram þá hættu forráðamenn PSG að greiða honum laun.

Mbappé var á rosalegum launum enda gerði Paris Saint-Germain allt á sínum tíma til að halda honum. Skuldin var því fljót að stækka mjög mikið.

Franska deildin gaf það síðan út í gær að upphæðin sé 55 milljónir evra og að Paris Saint-Germain þurfi nú að gera upp við leikmanninn. Þetta eru 8,4 milljarðar í íslenskum krónum.

Með því að borga ekki launin þá gæti PSG fengið refsingu frá UEFA sem gæti rekið félagið úr Meistaradeildinni.

Fulltrúar PSG og Mbappé hittust á miðvikudaginn á einhvers konar sáttafundi en ekkert kom út úr honum. Peningarnir eru þó ekki á leið inn á reikninginn strax því PSG ætlar að fara með málið lengra.

PSG segir að Mbappé hafi gefið eftir laun sín og bónusa og fulltrúar þess segjast hlakka til að staðreyndir málsins komi fram í dagsljósið.

Þetta mál mun því dragast eitthvað áfram. Mbappé er hins vegar farinn að spila á fullu með sínu nýja liði, Real Madrid á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×