Innlent

And­lát eftir höfuð­högg á LÚX komið á borð sak­sóknara

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn lést eftir líkamsárás á skemmtistaðnum LÚX.
Maðurinn lést eftir líkamsárás á skemmtistaðnum LÚX. Vísir/Vilhelm

Mál sem varðar andlát 25 ára gamals litáísks karlmanns sem lést eftir líkamsárás síðasta sumar er komið á borð héraðssaksóknara. Enn á eftir að gefa út ákæru í málinu.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, aðstoðarhéraðssaksóknari, í samtali við fréttastofu.

Morguninn 24. júní á síðasta ári var greint frá því að maður væri þungt haldinn á spítala eftir líkamsárás sem átti sér stað á skemmtistað í Reykjavík um nóttina. Seinna sama dag var greint frá því að maðurinn væri látinn.

Skemmtistaðurinn sem um ræðir hét LÚX, en honum hefur verið lokað og annar skemmtistaður opnað á sama stað. Sjónarvottar að árásinni sögðu að maðurinn sem lést hefði einungis hlotið eitt hnefahögg.

Hann var frá Litáen og hafði búið hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Greint var frá því að kærasta hans hefði flutt til landsins tveimur vikum fyrir andlátið.

Hinn grunaði í málinu, sem er Ís­­lendingur á þrí­­tugs­aldri, var handtekinn í kjölfar árásarinnar en sleppt úr haldi rúmri viku eftir að hún átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×