Erlent

Stjórn­völd í Kína banna ætt­leiðingar frá landinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn hafa ættleitt tugþúsundir barna frá Kína. Ákvörðunin skapar mikla óvissu fyrir þá sem eru enn í ferli.
Bandaríkjamenn hafa ættleitt tugþúsundir barna frá Kína. Ákvörðunin skapar mikla óvissu fyrir þá sem eru enn í ferli. Getty/CFOTO/Future Publishing

Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að banna ættleiðingar frá landinu, nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða ættingja sem vilja ættleiða barn sér skylt.

Frá þessu greindi Mao Ning, talskona utanríkisráðuneytis Kína, á daglegum blaðamannafundi í gær. Útskýrði hún ekki ákvörðunina að öðru leyti en að segja að hún væri í takt við alþjóðlega sáttmála.

Yfirvöld í Bandaríkjunum er sögð leita skýringa og svara um það hvaða áhrif ákvörðunin mun hafa á fjölda ættleiðinga sem þegar eru í ferli. Þau svör fengust í símtali bandarískra sendifulltrúa við yfirvöld í Pekíng í gær að fallið yrði frá öllum málum sem væru í ferli.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir sendiráðið hins vegar hafa farið fram á skrifleg svör.

Samkvæmt ráðuneytinu eru hundruð umsókna í ferli en Bandaríkjamenn hafa ættleitt 82.674 börn frá Kína á síðustu áratugum.

Dregið hefur verulega úr fæðingum í Kína og Kínverjum fækkað tvö ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×