Viðskipti innlent

Hagnaður í fyrsta sinn í fimm ár

Árni Sæberg skrifar
Einar Þorsteinsson borgarstjóri er ánægður með hagnaðinn.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri er ánægður með hagnaðinn. Vísir/Sigurjón

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar miðað við fyrstu sex mánuði ársins er jákvæð í fyrsta sinn frá árinu 2019, eða um 196 milljónir króna, sem er 1,1 milljarði króna betri niðurstaða en á sama tímabili 2023. Rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar er sömuleiðis jákvæð um 406 milljónir króna, 7,1 milljarði króna betri en á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar, sem lagður var fyrir borgarráð í dag.

„Þessi niðurstaða sýnir að þær aðhaldsaðgerðir sem við höfum ráðist í eru að skila miklum árangri. Ný umgjörð um ráðningar virkar og fjöldi stöðugilda stendur í stað þrátt fyrir aukna þjónustu og fjölgun íbúa. Ég er þakklátur öflugri liðsheild starfsmanna borgarinnar sem vinnur samhent að því að snúa við rekstri borgarinnar,“ er haft eftir Einari Þorsteinssyni borgarstjóri í fréttatilkynningu um uppgjörið.

Tekjur jukust um tólf milljarða

Þar segir að tekjur A- og B-hluta á tímabilinu hafi numið 133,7 milljörðum króna og hafi hækkað um tólf milljarða samanborið við sama tímabil árið 2023 eða um 9,9 prósent. Þar af hafi skatttekjur og tekjur frá Jöfnunarsjóði hækkað um 6,7 milljarða króna eða um 9,9 prósent, þar af hafi 0,23 prósent útsvarshækkun í ársbyrjun skilað 982 milljónum króna. 

Hækkun staðgreiðslu á milli ára hafi numið 6,7 prósent ef ofangreind útsvarshækkun er undanskilin. Aðrar tekjur hafi hækkað um 5,1 milljarð sem að hluta megi rekja til tekna Orkuveitu Reykjavíkur sem hafi aukist um 2,8 milljarða króna eða 9,3 prósent. 

Þau áhrif megi að hluta rekja til innkomu burðarnets Sýnar í rekstur Ljósleiðarans.

Fjármagnsgjöld lækkuðu verulega

Veltufé frá rekstri í hlutfalli af tekjum hafi verið 15,6 prósetn og hækkað um 2,1 prósentustig miðað við sama tímabil 2023 og hækki nú annað árið í röð.

Fjármagnsgjöld hafi numið fimmtán milljörðum króna, sem hafi verið 3,6 milljörðum lægra en á fyrri hluta síðasta árs. Þar muni mestu um að álafleiðan hafi verið 566 milljóna króna tekjufærsla í ár en 2,6 milljarða króna gjaldfærsla í fyrra. Aukningu í tekjuskatti megi að mestu rekja til betri afkomu Orkuveitunnar en á sama tímabili 2023.

Verðbólga tímabilsins hafi verið 3,6 prósent en í fjárhagsáætlun hafi verið áætlað að verðbólga yrði 2,8 prósent. Álverð hafi hækkað um 6 prósent frá ársbyrjun til loka júní.

Mikilvægur áfangi í stappi við ríkið

Í tilkynningu segir að rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er sá hluti rekstrar sem fjármagnaður er með skatttekjum, hafi verið jákvæð um 196 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) hafi verið jákvæð um 5,9 milljarða króna, sem sé um 1,8 milljarði betri niðurstaða en fyrir ári síðan. Rekstrartekjur hafi verið 1,3 milljörðum króna yfir áætlun, sem megi einkum rekja til þess að eftirá álagt útsvar hafi verið hærra en áætlað var. Staðgreiðsla útsvars hafi hins vegar verið undir áætlun ásamt sölu eigna á tímabilinu.

Í desember 2023 hafi annar áfangi náðst í samkomulagi við ríkið um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið hafi falið í sér tilfærslu skatttekna frá ríkinu til sveitarfélaga um 0,23 prósent frá og með árinu 2024. Rekja megi tæplega milljarð króna hækkun staðgreiðsluútsvars milli ára til þeirrar breytingar. Fyrsta samkomulagið hafi verið gert í desember 2022 og falið í sér tilflutning skatttekna á 0,22 prósent af útsvarsstofni frá og með árinu 2023. Sé horft til hækkunar útsvars frá upphafi árs 2023 hafi prósentuhækkun beggja ára skilað tæplega 2 milljörðum króna hærra útsvari fyrir fyrstu sex mánuði ársins. 

Þrátt fyrir samkomulagið glími sveitarfélög enn við mikla vanfjármögnun vegna málaflokks fatlaðs fólks og það sé eitt af megináherslum Reykjavíkurborgar í gildandi fjármálastefnu að leiðrétta fjármögnun hans.

Launakostnaður hundruðum milljóna yfir áætlun

Laun og launatengd gjöld hafi verið 790 milljónum yfir fjárheimildum. Helstu frávik megi rekja til afleysinga vegna veikinda og aukinnar mönnunar vegna stuðningsþarfa barna, einnig skýrist frávik af álagi í búsetukjörnum fatlaðs fólks.

Meðalfjölda stöðugilda standi í stað miðað við sama tímabil í fyrra og nú starfi 8.654 hjá Reykjavíkurborg. Eftirlit og aðhald með ráðningum þar sem áhersla hafi verið á að framlínuþjónusta yrði ekki skert hafi skilað árangri.

Annar rekstrarkostnaður hafi verið rúmlega 1.600 milljónum umfram fjárheimildir, en tekjur komi á móti hluta þessa kostnaðar. Helstu frávik sé meðal annars að finna í hráefniskostnaði mötuneyta á skóla- og frístundasviði, sem hafi verið um 200 milljónum yfir fjárheimildum. Á velferðarsviði megi rekja frávik meðal annars til vistgreiðslna vegna barna á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, sem hafi verið 757 milljónum yfir fjárheimildum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×