Erlent

Enn ein „loka­til­raun“: Sam­komu­lag sagt stranda á tveimur at­riðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er erfitt að sjá fyrir sér að Netanyahu og Yahya Sinwar, pólitískan leiðtoga Hamas, komist að málamiðlun.
Það er erfitt að sjá fyrir sér að Netanyahu og Yahya Sinwar, pólitískan leiðtoga Hamas, komist að málamiðlun. AP

Yfirvöld í Egyptalandi og Katar vinna nú að breytingum á tillögum um vopnahlé á Gasa og eiga í samráði við Bandaríkjamenn. Enn er talað um „lokatilraun“ til að brúa bilið milli Ísrael og Hamas.

Samkvæmt umfjöllun New York Times strandar málið á tveimur atriðum; annars vegar fjölda gísla og fanga sem yrði sleppt, og hverjum yrði sleppt, og hins vegar hvort og þá hvenær Ísraelsmenn myndu hverfa frá svokölluðu „Philadelphi-hliði“, það er landamærum Gasa og Egyptalands.

Ef marka má yfirlýsingar aðila í vikunni virðist samkomulag langsótt en Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, ítrekaði í gær að Ísraelsmenn myndu ekki láta landamæraeftirlitið eftir.

„Fólk segir: Ef þið verðið um kyrrt þá er það banabiti samkomlagsins. Ég segi: Slíkt samkomulag yrði okkur að aldurtila,“ sagði forsætisráðherrann.

Forsvarsmenn Hamas segjast aldrei munu ganga að samkomulagi sem kveður á um áframhaldandi viðveru Ísraelshers á Gasa og hafa sakað Ísraelsmenn um að eyðileggja viljandi fyrir samningaviðræðunum.

Samtökin hafa á sama tíma haldið áfram að ögra Ísraelum, bæði með því að myrða gísla og birta af þeim myndskeið. Ísraelsmenn hafa kallað þetta „sálfræðileg hryðjuverk“.

Joe Biden Bandaríkjaforseti svaraði neitandi í vikunni þegar hann var spurður að því hvort honum þætti Netanyahu vera að gera nóg til að frelsa gíslana. Spurður um neitun Biden vísaði Netanyahu til yfirlýsinga utanríkisráðherrans Antony Blinken um lofsverða framgöngu Ísrael í viðræðunum.

New York Times hefur eftir nokkrum heimildarmönnum innan bandaríska stjórnkerfisins að þeir telji Netanyahu hins vegar ekki einlægan þegar kemur að friðarviðræðunum; í raun og veru sé hann að tefja málið fram að kosningum í Bandaríkjunum, í þeirri von að Donald Trump komist til valda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×