Innlent

Gjald­töku á bíla­stæðum há­skólans frestað

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vinna við innleiðingu gjaldtökunnar hefur tekið lengri tíma en áætlað var.
Vinna við innleiðingu gjaldtökunnar hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Vísir/Vilhelm

Gjaldtöku fyrir bílastæði við Háskóla Íslands hefur verið frestað fram yfir áramót. Ætlað var að almenn gjaldtaka yrði innleidd á háskólasvæðinu með fyrsta september en fram kemur í tilkynningu frá háskólanum að vinna við innleiðinguna hafi tekið lengri tíma en ætlað var og því hafi verið tekin sú ákvörðun að fresta henni.

Í mars þessa árs tilkynnti Háskóli Íslands að hann hygðist innleiða gjaldtöku við bílastæði skólans. Gjald verður tekið fyrir notkun bílastæða frá klukkan 8 til 16 á virkum dögum og verður bílastæðum skipt í tvö gjaldsvæði.

Á svæði A, sem merkt eru rauðum lit á meðfylgjandi mynd, eru valin stæði næst byggingum þar sem þar sem alltaf verður tekið gjald líkt og hefur verið í Skeifunni við Aðalbyggingu og við Gimli. Þessum stæðum verður, að því er fram kemur í tilkynningunni, fjölgað og verða þau rúmlega 200 af um 1700 bílastæðum á háskólasvæðinu.

Þá eru önnur stæði á svæði B, merkt bláum lit, þar sem tekið verður almennt gjald en nemendur og starfsfólk munu geta skráð bifreiðir sínar til að fá heimild til að leggja á þeim stæðum án annarrar þóknunar en hóflegs skráningargjalds.

Bílastæðunum verður skipt í tvö gjaldsvæði.Háskóli Íslands

Handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða verður eftir sem áður heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstrakrar greiðslu.

Fyrirkomulagi áformaðrar gjaldtöku hefur ekki verið breytt frá tilkynningu háskólans frá því í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×