Erlent

Enn einn eld­flaug­a­vís­ind­a­mað­ur­inn dæmd­ur í fang­els­i

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingum rússneska sjóhersins árið 2020, þar sem meðal annars voru gerðar æfingar með ofurhljóðfráar eldflaugar.
Frá æfingum rússneska sjóhersins árið 2020, þar sem meðal annars voru gerðar æfingar með ofurhljóðfráar eldflaugar. EPA/ALEXEI DRUZHININ

Alexander Shiplyuk, eldflaugavísindamaður, var í morgun dæmdur í fimmtán ára fangelsi í Rússlandi. Hann er að minnsta kosti fjórði vísindamaðurinn sem komið hefur að þróun nýrra ofurhljóðfrárra eldflauga Rússa sem dæmdur er í fangelsi.

Shiplyuk, sem er 57 ára gamall, kom að þróun svokallaðra ofurhljóðfrárra eldflauga, sem eiga að geta flogið á margföldum hljóðhraða. Hann var handtekinn í ágúst 2022 og var hann samkvæmt Reuters sakaður um að hafa afhent leynilegar upplýsingar til kínverskra útsendara á ráðstefnu árið 2017.

Hann var dæmdur til að afplána dóm sinn í fanganýlendu með mikilli öryggisgæslu.

Eins og áður segir hafa aðrir eldflaugavísindamenn sem störfuðu á mismunandi sviðum sem tengjast tækninni verið handteknir og sakaðir um landráð á undanförnum árum.

Í heildina er talið að tólf eldflaugavísindamenn hafi verið handteknir á undanförnum tveimur árum. Þessir menn hafa meðal annars verið sakaðir um að leka upplýsingum til Kína og Evrópu. Samkvæmt Moscow Times er Shiplyuk fjórði eldflaugavísindamaðurinn sem dæmdur er í fangelsi fyrir landráð.

Þar að auki er tveir af þeim tólf sem hafa verið handteknir látnir.

MT hefur eftir lögmanni sem unnið hefur fyrir nokkra af vísindamönnunum að skipanir hafi borist til FSB, arftaka KGB, að ofan um að saka ætti mennina um landráð. Markmiðið væri að gera ofurhljóðfráum eldflaugum Rússa hátt undir höfði.

Ráðamenn í Rússlandi hafa haldið því fram að eldflaugar þeirra séu þær þróuðustu í heimi og geti komist hjá loftvarnarkerfum annarra ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×