Fótbolti

Ingi­björg til liðs við Brönd­by

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingibjörg hefur spilað á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Á næstu dögum mun Danmörk bætast við listann.
Ingibjörg hefur spilað á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Á næstu dögum mun Danmörk bætast við listann. Getty Images

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir er mætt til Bröndby í Danmörku og mun spila með liðinu út yfirstandandi leiktíð. Hún verður annar Íslendingurinn í herbúðum liðsins en Hafrún Rakel Halldórsdóttir spilar einnig með Bröndby.

Þessi 26 ára gamli miðvörður kemur frá Duisburg í Þýskalandi en hafði áður spilað með Vålerenga í Noregi og Djurgårdens í Svíþjóð. 

Ingibjörg er þaulreynd þrátt fyrir ungan aldur og hefur spilað alls 65 A-landsleiki. Hún er spennt fyrir komandi tímum í gulu.

„Ég er mjög glöð að semja við jafn sögufrægt lið og Bröndby er. Ég hlakka til að hefjast handa og get vonandi hjálpað liðinu svo við getum saman náð markmiðum okkar og unnið titla.“

Ingibjörg mun spila í treyju númer 24 og gæti leikið sinn fyrsta leik á miðvikudag þegar Bröndby mætir Alexöndru Jóhannsdóttur og stöllum í Fiorentina í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Bröndby er með aðeins fjögur stig eftir fjórar umferðir í efstu deild kvenna í Danmörku, átta stigum á eftir toppliðum Fortuna Hjörring og Nordsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×