Skoðun

Best í heimi?

Kristín Björnsdóttir skrifar

Í skólastarfi er mikið um alls kyns álitamál. Reyndar svo mikið að á köflum getur það reynst yfirþyrmandi. Ýmsir aðilar takast opinberlega á um skólamálin með kröfur um árangur á fjölbreyttum sviðum. Stjórnmálamenn, fræðingar, spekúlantar og sjálfskipaðir sérfræðingar. Við viljum skora hátt á matslistum og í alþjóðlegum könnunum. Við viljum vera best.

En hvernig getum við skorað hátt og orðið best? Hvernig getum við komist á þann stað að samræmdu mælingarnar séu okkur í hag? Hérlendis verður enginn fagmenntaður grunnskólakennari án þess að ganga í gegnum fimm ára háskólanám sem skilar meistaragráðu í fræðunum. Grunnskólakennarar eru vel menntaðir og þeir eru sérfræðingar í kennslu. Einhverra hluta vegna skila þessir vel menntuðu grunnskólakennarar sér ekki til starfa í grunnskólunum. Staðan er sú að grunnskólakennarar fást ekki til starfa og mörg dæmi eru um það að enginn sæki um auglýstar stöður kennara.

Þessi alvarlega staða hefur bein áhrif á fagmennsku í skólastarfi og gæði þess. Til að bæta gráu ofan á svart þá er íslenskt námsefni úrelt að miklu leyti og hefur endurnýjun og útgáfu nýs efnis verið verulega ábótavant í mörg ár. Þá er vel við hæfi að velta upp þeirri spurningu hvort starfsaðstæður kennara geri þeim raunverulega kleift að bjóða nemendum upp á bestu mögulegu menntun og hífa okkur upp á fyrrnefndum matslistum og könnunum.

Hvað heldur þú?

Lesandi góður, þú þarft að gera upp við þig hvað þú vilt bjóða barninu þínu, barnabarninu eða börnum annarra upp á. Íslenskt samfélag þarf að sameinast í því að fjárfesta í kennurum og skapa þeim viðunandi starfsaðstæður til framtíðar.

Þá fyrst eigum við möguleika á að verða best í heimi.

Höfundur er formaður Kennarafélags Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×