Sport

Ingeborg komst ekki á­fram í París

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ingeborg Eide Garðarsdóttir komst ekki í úrslit.
Ingeborg Eide Garðarsdóttir komst ekki í úrslit. Mynd/Laurent Bagnis

Ingeborg Eide Garðarsdóttir keppti í dag í kúluvarpi á Ólympíumóti fatlaðra í París. Ingeborg endaði í níunda sæti og komst ekki áfram í úrslit.

Ingeborg keppir í flokki F37 en alls voru níu sem tóku þátt í hennar flokki. Hún er eini íslenski keppandinn í frjálsum íþróttum á mótinu. 

Ingeborg kastaði 9,38 metra í sínu fyrsta kasti og gerði síðan ógilt í öðru kastinu. Alls kasta keppendur þrisvar sinnum og að þremur umferðum loknum fara átta efstu áfram og kasta í þrígang til viðbótar.

Ingeborg var í níunda og neðsta sæti fyrir þriðju umferðina og þurfti að kasta lengra en 9,81 metra til að tryggja sér sæti í úrslitum en Íslandsmet hennar síðan í apríl er 9,83 metrar. Það tókst ekki, þriðja kastið mældist 9,26 metrar, og lauk Ingeborg því keppni eftir þrjú köst.

Ingeborg var 43 sentimetrum frá því að fara áfram en Maria Henao Sanchez náði áttunda sætinu með kasti upp á 9,81 metra. Yngli Li frá Kína er efst í þessum töluðu orðum með kast upp á 13,45 metra.

Ingeborg hefur því lokið keppni á Ólympíuleikunum en í fyrramálið keppa þau Már Gunnarsson og Thelma Björg Björnsdóttir í sundi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×