Fótbolti

„Við erum fokking leiðir yfir því“

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Rafn Ólafsson er á leið í landsliðsverkefni eftir helgina.
Elías Rafn Ólafsson er á leið í landsliðsverkefni eftir helgina. Getty/Zac Goodwin

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir að hafa misst af tækifæri til að spila í sjálfri Meistaradeild Evrópu í fótbolta í vetur, með grátlegum hætti.

Elías varði mark danska meistaraliðsins Midtjylland í Slóvakíu í gær, þegar það tapaði 3-2 gegn Slovan Bratislava í seinni umspilsleiknum um sæti í Meistaradeildinni.

Midtjylland var 2-1 yfir þegar tíu mínútur voru eftir, og þar með samtals 3-2 yfir í einvígi liðanna, en allt gekk á afturfótunum á lokakaflanum.

„Þetta er alveg hræðilegt. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er mjög erfitt. Við spiluðum vel í fyrri hálfleiknum og sköpuðum færi, en svo vorum við undir pressu síðasta hálftímann en ég veit ekki hvað meira ég get sagt,“ sagði Elías við Viaplay.

Þó að Midtjylland muni spila í Evrópudeildinni í vetur þá er það lítil huggun fyrir Elías:

„Við erum fokking leiðir yfir þessu, því þetta gæti hafa verið eina tækifærið okkar. Það er draumur allra að spila í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Elías.

„Við áttum að gera betur. Þetta er okkur að kenna. Við erum með betra lið en þeir og verðum að gera betur,“ sagði Elías.

Dregið verður í Meistaradeildina nú síðdegis en drátturinn í Evrópudeildina er á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×