Erlent

Á­rásar­maðurinn verði ekki látinn laus fyrr en að undan­gengnu mati

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ingunn var þungt haldin eftir árásina og þurfti að gangast undir nokkrar aðgerðir. Þá hefur hún glímt við andlegar afleiðingar.
Ingunn var þungt haldin eftir árásina og þurfti að gangast undir nokkrar aðgerðir. Þá hefur hún glímt við andlegar afleiðingar. Ingunn Björnsdóttir

Saksóknarinn Alvar Randa hefur farið fram á sjö ára og sex mánaða dóm yfir manninum sem réðist á Ingunni Björnsdóttur, dósent í lyfjafræði, í Oslóarháskóla í fyrra.

Randa sagði ljóst að maðurinn væri stórhættulegur. 

Saksóknarinn fór fram á fimm ára dóm að lágmarki en ef dómarinn fellst á kröfuna verður maðurinn ekki látinn laus nema að undangengnu mati. Um er að ræða svokallaða „öryggisvistun“, þar sem menn fá ekki að ganga lausir nema talið sé að samfélaginu stafi ekki lengur hætta af þeim.

Maðurinn réðst á Ingunni og kollega hennar á fundi þar sem til umræðu var annað fall hans á prófi. Sagðist hann við réttarhöldinn hafa verið afar ósáttur við Ingunni og fundist hún tala niður til sín.

Hann segist ekki iðrast gjörða sinna.

Randa sagði við lok réttarhaldanna að árásin gæti aðeins flokkast sem tilraun til manndráps, þrátt fyrir að maðurinn hefði haldið því fram að hann hefði ekki haft í hyggju að myrða Ingunni. 

Hann skar Ingunni bæði á háls og stakk hana í kviðinn. Þá hélt hann áfram að veita henni áverka eftir að hún hafði dottið í gólfið en stungusárin eru sögð hafa verið á bilinu fimmtán til tuttugu.

Randa sagði ljóst að maður sem gæti misst stjórn á skapi sínu með þessum afleiðingum mætti ekki ganga laus. Þá vísaði hann til afstöðu mannsins; að sú þjáning sem hann hefði valdið væri engu meiri en sú þjáning sem Ingunn hefði valdið honum.

Saksóknarinn sagði enn fremur ljóst að maðurinn vildi ekki viðurkenna að hann ætti við vandamál að stríða, sem gerði það erfitt að veita honum meðferð. Ástæða væri til að óttast hvað hann myndi gera næst þegar hann lenti í erfiðum aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×