Erlent

Fjórir látnir eftir aðra um­ferð loft­á­rása Rússa í nótt og morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að minnsta kosti 40 heimili í og umhverfis Kænugarð urðu fyrir skemmdum í árásum Rússa í gær.
Að minnsta kosti 40 heimili í og umhverfis Kænugarð urðu fyrir skemmdum í árásum Rússa í gær. Getty/Hermálayfirvöld í Kænugarði

Íbúar víðsvegar um Úkraínu voru hvattir til að leita skjóls í morgun, annan daginn í röð, vegna umfagnsmikilla loftárása Rússa. Tveir létust í árás á hótel í borginni Kryvyi Rih í nótt og tveir til viðbótar í drónaárásum á Zaporizhzhia.

Sprengingar heyrðust í Kænugarði, þar sem loftvarnarkerfi voru sögð hafa skotið niður eldflaugar og dróna. Viðvaranir voru gefnar út strax í gærkvöldi í Kænugarði, Kryviy Rih og mörgum héruðum í mið- og austurhluta Úkraínu.

Að sögn Serhiy Lisak, ríkisstjóra Dnipropetrovsk, er talið að tveir almennir borgarar séu mögulega fastir undir húsarústum hótelsins í Kryvyi Rih. Fjórar stórar byggingar, sex verslanir og átta bifreiðar skemmdust í árásunum á borgina.

Að minnsta kosti sjö létust í árásum gærdagsins, þegar Rússar beittu hundruðum eldflauga og dróna gegn skotmörkum í Úkraínu. Orkuinnviðir voru meðal skotmarkanna og margir voru án rafmagns og vatns í gær.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði að um hefði verið að ræða að minnsta kosti 127 eldflaugar og 109 dróna en hershöfðinginn Mykola Oleshchuk sagði að af þeim hefðu 102 eldflaugar og 99 drónar verið skotnir niður.

Oleshchuk sagði um að ræða umfangsmestu loftárásir Rússa til þessa.

Árásirnar voru fordæmdar af leiðtogum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Þá greindi yfirvöld í Póllandi frá því að Rússar hefðu rofið lofthelgi landsins. 

Ráðamenn í Úkraínu hafa kallað eftir aukinni aðstoð frá bandamönnum, meðal annars við að skjóta niður eldflaugar og dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×