Innlent

Fundu virka sprengju nærri göngu­leið

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar er mengað af virkum og óvirkum sprengjum, frá æfingum Bandaríkjahers á 20. öldinni. Afar mikilvægt er að ganga eftir þekktum gönguslóðum á svæðinu.
Svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar er mengað af virkum og óvirkum sprengjum, frá æfingum Bandaríkjahers á 20. öldinni. Afar mikilvægt er að ganga eftir þekktum gönguslóðum á svæðinu. Vísir/Vilhelm

Virk sprengja hefur fundist nærri gönguleið sunnan Voga og sunnan Reykjanesbrautar við upphaf eldgossins. Svæðið er þekkt sprengjusvæði, en þar stóð bandaríski herinn fyrir skotæfingum allt fram til ársins 1960.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjunum.

Þar segir að svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar hafi verið sprengjuleitað í gegnum tíðina, en þrátt fyrir það sé svæðið mengað af virkum og óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa. Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju geti valdið manntjóni.

Nauðsynlegt sé að vekja athygli á þessu nú þegar erlendir ferðamenn streyma inn á Reykjanesið til að berja gosið augum.

Um er að ræða fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (Mortar) og æfingasprengjur. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu þeirra eða stærð svæðisins sem þær geta verið á.

Á kortinu hér að neðan sést svæði þar sem fólk þarf að halda sig við merkta gönguslóða. Heimamenn og útivistarmenn sem hafa gengið um svæðið þekkja þetta vel, en nú sé nauðsynlegt að vekja athygli á þessu.

Á svæðinu leynast fallbyssukúlur, sprengjuvörpur og æfingasprengjur.Lögreglan

Þá segir einnig að gosstöðvarnar séu ekki aðgengilegar ferðamönnum við núverandi aðstæður. Loftgæði séu slæm og mengunar gæti frá gosinu og gróðureldum.

Þrátt fyrir þetta skundi ferðamenn með börn sín inn á hættuleg svæði.

Að lokum segir að við ákveðnar aðstæður geti komið til frekari takmarkana á umferð um Grindavíkurveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×