Erlent

Átta látnir eftir gísla­töku í rúss­nesku fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna gíslatökunnar í IK-19 Surovikino fangelsinu í dag. Leyniskyttur þjóðvarðliðsins í Novograd skutu fjóra gíslatökumenn til bana.
Mikill viðbúnaður var vegna gíslatökunnar í IK-19 Surovikino fangelsinu í dag. Leyniskyttur þjóðvarðliðsins í Novograd skutu fjóra gíslatökumenn til bana. Vísir/EPA

Leyniskyttur skutu fjóra fanga til bana sem tóku fangelsisstarfsmenn til fanga og stungu fjóra til bana í Vogograd-héraði í Rússlandi í dag. Fangarnir lýstu sjálfum sér sem vígamönnum Ríkis íslams í myndbandi sem þeir birtu á netinu.

Átta starfsmenn hámarksöryggisfangelsisins í Surovikino og fjórir fangar voru teknir í gíslingu á fundi hegningarnefndar fangelsisins, að sögn fangelsisyfirvalda í Rússlandi. Þjóðvarðliðið í Volgograd segir að aðrir gíslar sem fanganir tóku hafi verið frelsaðir. Auk þeirra fjögurra sem voru stungnir til bana voru nokkrir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. 

Í myndbandi sem gíslatökumennirnir birtu virtist einn þeirra látnu hafa verið skorinn á háls. Einn gíslatökumannanna heyrðist þar hrópa að þeir væru stríðsmenn (mujahideen) Ríkis íslams, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Ekki er ljóst hvernig fangarnir komust yfir eggvopn eða snjallsíma til þess að taka myndband og birt aá netinu. Í einu myndbandanna sást einn gíslatökumannana með það sem virtist sprengjuvesti en aðrir með hnífa og hamra.

Þá var ekki skýrt hverjar kröfur þeirra voru. Einn gíslatökumannanna talaði um að Rússland kúgaði múslima alls staðar. Þeir hefðu brugðist vægðarlaust við illri meðferð á múslimum í fangelsinu. Rússneskir fjölmiðlar segja að mennirnir séu frá Tadsjikistan og Úsbekistan. Þrír þeirra hafi afplánað dóma fyrir fíkniefnabrot en sá fjórði hafi orðið manni að bana í slagsmálum.

Stutt er síðan sex fangar sem tengdust Ríki íslams tóku tvo fangaverði í gíslingu í nágrannahéraðinu Rostov. Fimm þeirra voru drepnir en sá sjötti hlaut tuttugu ára fangelsisdóm fyrir sína aðild að gíslatökunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×