Fótbolti

„Sá þetta ekki fyrir mér þegar ég átti af­mæli síðast“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson (lengst til vinstri) fagnar sigrinum með liðsfélögum sínum í kvöld.
Óskar Örn Hauksson (lengst til vinstri) fagnar sigrinum með liðsfélögum sínum í kvöld. Vísir/Diego

Óskar Örn Hauksson hélt upp á fertugsafmælið sitt með því að koma inn á í 5-0 sigri Víkings gegn Santa Coloma í fyrri leik liðanna um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

„Ég sá þetta ekki fyrir mér þegar ég átti afmæli síðast þannig að þetta er bara hrikalega gaman,“ sagði afmælisbarnið Óskar Örn í leikslok.

Hann segir þó að leikur kvöldsins hafi verið furðulegur, enda sé það ekki á hverjum degi sem lið vinna fimm marka sigur í úrslitaeinvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

„Já, á þessu stigi keppninnar er þetta svolítið skrýtinn leikur. En þetta var virkilega góður leikur af okkar hálfu, en þetta er ekki besta liðið sem við höfum mætt á þessari leið.“

„Við áttum þetta inni eftir heimaleikina undanfarið og það var virkilega ánægjulegt að ná svona góðri frammistöðu í svona mikilvægum leik.“

Hann segir það þó ótrúlegt að Víkingur hafi ekki náð að vinna enn stærra en 5-0.

„Já, þegar þú segir það. Það má ekki gleymast að við klúðrum tveimur vítum en vinnum samt 5-0. Maður bjóst ekki við þessu á þessu stigi keppninnar.“

Að lokum vildi Óskar þó ekkert gefa upp um hvort hann þurfi að taka á sig stærra hlutverk í seinni leik liðanna ef Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, ákveður að gefa öðrum leikmönnum kærkomna hvíld.

„Það kemur í ljós. Við erum að fara að spila örugglega í miklum hita og hátt yfir sjávarmáli heyrði ég þannig að það verður auðvitað ekkert auðveldur leikur. En þetta er í okkar höndum, klárlega,“ sagði Óskar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×