Erlent

Hátt í þrjá­tíu píla­grímar fórust í rútuslysi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fólkið var á leið til Karbala í tilefni árlegu pílagrímsferðarinnar Arbaeen.
Fólkið var á leið til Karbala í tilefni árlegu pílagrímsferðarinnar Arbaeen. Getty/Karar Essa

Minnst tuttugu og átta pakistanskir pílagrímar fórust þegar rúta valt í Íran í gærkvöldi. Tuttugu og þrír til viðbótar slösuðust.

Slysið varð í hérðainu Yazd í miðju landinu og er talið hafa orðið vegna bilunar í hemlunarbúnaði rútunnar samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins. Sjö hinna slösuðu eru sagðir í lífshættu. Þau sem létust voru ellefu konur og sautján karlmenn.

Pílagrímarnir voru á leið frá Sindh-hérðai í Pakistan til Karbala í Írak, sem er einn helgistaða Shia-múslima. Fimmtíu og þrír eru sagðir hafa verið í rútunni, þar á meðal pílagrímar frá borgunum Larkana og Ghotki í Sindh. 

Eftirlifandi farþegar í rútunni segja bílstjórann hafa ekið mjög hratt og glannalega og þekkt vegina illa. Bremsurnar hafi bilað og hann misst stjórn á rútunni sem valt. Í kjölfarið kviknaði svo í henni.

Asif Ali Zardari, forseti Pakistan, tilkynnti í morgun að utanríkisþjónustan vinni nú að því að endurheimta líkin og aðstoða þá sem slösuðust. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×