Innlent

Enginn hvati fyrir fyrir­­­tæki til að endur­­vinna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Vísir/Vilhelm

Félag atvinnurekenda (FA) furðar sig á miklum hækkunum í gjaldskrá Sorpu fyrir móttöku á matvælum í umbúðum sem notuð eru til jarðgerðar. FA óskar eftir rökstuðningi fyrir hækkuninni sem nemur rúmlega 86 prósentum frá því á fyrri hluta síðasta árs. 

Í tilkynningu á vef félagsins segir að nú sé enginn fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki að skila útrunnum matvælum í umbúðum inn til jarðgerðar. Nú kostar móttakan jafn mikið og móttaka á óflokkuðum úrgangi. 

„Gjald fyrir móttöku matvæla í umbúðum til jarðgerðar var í byrjun síðasta árs 37,4% lægra en gjald fyrir móttöku óflokkaðs úrgangs til brennslu en hefur frá áramótum verið það sama. FA bendir í erindi sínu á að þessi breyting dragi augljóslega úr hvata fyrirtækja til að taka umhverfis- og loftslagsvænni kostinn og koma útrunnum matvælum í jarðgerð,“ segir í tilkynningunni. 

FA hvetur Sorpu til að gera breytingar á gjaldskrá sinni og veita fyrirtækjum hvata til að velja að endurvinna matvælin fremur en að henda þeim með öðru óflokkuðu sorpi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×