Erlent

Blinken segir komið að ögur­stundu í samninga­við­ræðunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken og Herzog á blaðamannafundi í morgun.
Blinken og Herzog á blaðamannafundi í morgun. AP/Kevin Mohatt

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir komið að ögurstundu í friðarviðræðum Ísrael og Hamas og nú sé mögulega lokatækifærið til að semja um lausn gíslanna sem Hamas tóku fanga í árásum sínum 7. október síðastliðinn.

Blinken er staddur í Ísrael, þar sem hann hefur þegar fundað með forsetanum Isaac Herzog og mun funda síðar í dag með forsætisráðherranum Benjamin Netanyahu.

Samkvæmt Agence France-Presse sagði Blinken á blaðamannafundi með Herzog að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði gert hann út af örkinni til að freista þess að þoka samningi að og vonandi yfir línuna. 

„Það er tímabært að ljúka þessu,“ sagði Blinken.

Hann sagði einnig tímabært að tryggja að enginn gripi til aðgerða sem gætu gert út af við viðræðurnar, að það yrðu engar ögranir, engin stigmögnun.

Báðir aðilar hafa sakað hinn um að ganga að samningaborðinu með eitthvað allt annað í huga en að ná fram friði og þá hafa báðir sömuleiðis sakað hinn um að leggja fram nýja og nýjar kröfur sem ekki er hægt að mæta.

Hamas-liðar eru sagðir hafa áhyggjur af því að Ísraelar muni halda hernaðaraðgerðum sínum á Gasa áfram þegar búið er að sleppa flestum gíslunum en Ísraelsmenn hafa gert kröfu um að viðhafa áfram hernaðarviðbúnað á landamærum Gasa og Egyptalands.

Netanyahu sætir miklum þrýstingi heima fyrir, þar sem ættingjar gíslanna kalla eftir tafarlausum aðgerðum til að stuðla að lausn þeirra og stór hluti almennings vill forsætisráðherrann frá. Á sama tíma vilja sumir samstarfsmanna hans í ríkisstjórn ekki sjá neitt gefið eftir í viðræðum við Hamas.

Málið vandaðist enn á dögunum þegar Hamas ákvað að gera Yahya Sinwar, manninn sem er sagður „arkítekt“ árásanna 7. október að pólitískum leiðtoga sínum eftir að Ismail Haniyeh var ráðinn af dögum í Tehran.

Sinwar, sem er talinn í felum á Gasa, er þannig maðurinn sem situr andspænis Ísrael við samningaborðið á sama tíma og það er eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnvalda þar í landi að koma honum fyrir kattarnef.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×