Körfubolti

Fyrstur til að skora fjögurra stiga körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Banchero skoraði sögulega körfu því hann fékk fjögur stig fyrir hana.
Chris Banchero skoraði sögulega körfu því hann fékk fjögur stig fyrir hana. Skjámynd

Hugmyndin um fjögurra stiga körfur í körfubolta er orðin að veruleika og nú hefur verið skoruð fyrsta fjögurra stiga karfan í opinberum körfuboltaleik.

Það var mikil breyting þegar þriggja stiga línan var tekin upp í lok áttunda áratugar síðustu aldar en nú vilja menn gera aðra róttæka breytingu á leiknum. Tilraunaverkefni er farið í gang í Asíu.

Fyrsta fjögurra stiga karfan var skoruðu um helgina í leik á Filippseyjum og hana skoraði Chris Banchero sem spilar með liði Meralco Bolts. Banchero skoraði körfuna í öðrum leikhluta í leik á móti Magnolia.

„Diego þjálfari sagði við mig fyrir nokkrum vikum að ég yrði sá fyrsti til að skora fjögurra stiga körfu,“ sagði Banchero við blaðamenn eftir leikinn.

„Það er gaman að komast í sögubækurnar en þetta er bara aðeins lengra frá en þriggja stiga línan er og því ekki svo klikkað fyrir mig að setja þetta niður,“ sagði Banchero sem setti fjóra putta upp í loftið þegar hann hljóp til baka eftir körfuna.

Þetta var hans fyrsta tilraun í leiknum en tveir liðsfélagar hans höfðu reynt að skjóta fyrir utan fjögurra stiga línuna fyrr í leiknum. Chris Newsome tók fyrra skotið en CJ Cansino það síðara.

Körfuboltasamband Filippseyja er að prófa fjögurra stiga línuna á þessu tímabili en hún er í 27 feta fjarlægð frá körfunni eða í 8,2 metra fjarlægð.

Þriggja stiga línan er áfram til staðar en hún er í 23 feta fjarlægð frá körfunni sem gera sjö metra frá körfunni.

Það má sjá þessa sögulegu körfu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×