Viðskipti innlent

Telja minni líkur á sam­drætti í ferða­þjónustu með aukinni korta­veltu

Kjartan Kjartansson skrifar
Aldrei hefur mælst meiri kortavelta á hvern ferðamann en í júlímánuði.
Aldrei hefur mælst meiri kortavelta á hvern ferðamann en í júlímánuði. Vísir/Vilhelm

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei verið meiri en hún var í júlí samkvæmt uppfærðum tölum Seðlabankans. Greinendur Landsbankans telja þetta benda til þess að staða í ferðaþjónustu sé ekki eins slæm og af hefur verið látið og minni líkur á samdrætti.

Erlend kortavelta jókst um 3,6 prósent á föstu gengi fyrstu sjö mánuði ársins samkvæmt nýjum tölum sem Seðlabankinn hefur birt og byggja á uppfærðri aðferð. Breytingin er veruleg frá eldri gögnum sem bentu til 7,3 prósent samdráttar á fyrri helmingi ársins.

Í júlí jókst kortaveltan um 3,8 prósent á milli ára á föstu gengi og hefur aldrei mælst meiri í einum mánuði, alls 47,5 milljarða króna. Ennfremur hefur aldrei mælst meiri kortavelta á hvern ferðamann en í júlí. 

Á móti kom að gistinóttum ferðamanna á skráðum gististöðum fækkaði um fjögur prósent milli ára á fyrri helmingi ársins. Von er á nýjum tölum um gistinætur fyrir júlí í lok mánaðarins.

Þrátt fyrir það telja greinendur Landsbankans að þegar litið sé til aukningar kortaveltunnar og 0,5 prósent fjölgunar ferðamanna í júlí á milli ára að júlímánuður hafi verið kröftugur í ferðaþjónustunni.

„Þetta bendir til þess að staðan í ferðaþjónustu sé ekki jafn slæm og áður var talið og líkur á samdrætti í greininni eru orðnar minni að okkar mati,“ segir í grein á vefsíðu bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×