Innlent

Raf­leiðni og vatns­hæð aftur lækkandi í ánni Skálm

Eiður Þór Árnason skrifar
Vel er fylgst með ánni Skálm. Ljósmyndin er úr safni.
Vel er fylgst með ánni Skálm. Ljósmyndin er úr safni. Vísir/Jóhann

Rafleiðni og vatnshæð hefur farið lækkandi í ánni Skálm síðustu klukkustundir. Áfram mælast hækkuð gildi brennisteinsvetnis nærri upptökum Múlakvíslar og er ferðafólk á svæðinu beðið um að sýna aðgát við upptök ánna og nærri árfarvegunum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.

Engar markverðar breytingar hafa orðið í óróa á jarðskjálftamælum í kringum Mýrdalsjökul. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Í morgun var greint frá því að rafleiðni hafi farið hækkandi í Skálm og Múlakvísl frá því seinnipartinn í gær. Var þetta talið geta verið merki um leka jarðhitavatns frá Mýrdalsjökli.

Óvenjustórt hlaup varð úr Mýrdalsjökli 27. júlí sem rann í farveg Skálmar með þeim afleiðingum að Þjóðvegur 1 rofnaði. 

Áfram hærra en eðlilegt getur talist

Rafleiðni mældist um 194 míkrósímens á sentímetra (µS/cm) síðdegis í dag sem er þó enn hærra en eðlilegt er miðað við árstíma, að sögn náttúruvásérfræðinga Veðurstofunnar. Hæst mældist rafleiðnin tæplega 260 míkrósímens á sentímetra í morgun. Náttúruvárvakt Veðurstofunnar hyggst vakta svæðið áfram.

Há rafleiðni vatns getur verið vísbending um streymi gastegunda í það og bent til að jarðhitavatn renni í það undan jökli. Leiðni vatns segir til um styrk uppleystra rafhlaðinna efna og efnasambanda í vatninu en því meiri sem styrkurinn er því meiri er leiðnin, að því er fram kemur á Vísindavefnum. Leiðnin vaxi sömuleiðis með auknum hita. Ef gastegundir leysist upp í vatni og myndi hlaðin efnasambönd aukist leiðni vatnsins.


Tengdar fréttir

Ummerki eftir hlaupið stóra í sigkötlum í Mýrdalsjökli

Litlar breytingar hafa orðið í Mýrdalsjökli eftir hlaup sem gekk niður farveg Skálmar síðustu helgina í júlí. Hreyfingarnar í sigkötlum á Mýrdalsjökli voru merkjanlegar þegar ljósmyndari Vísis flaug þar yfir í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×