Fótbolti

„Ætlum að gera at­lögu að titlinum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson náði í tvær vítaspyrnur í leiknum í kvöld. 
Ísak Snær Þorvaldsson náði í tvær vítaspyrnur í leiknum í kvöld.  Vísir/Pawel

Ísak Snær Þorvaldsson nældi í tvær vítaspyrnur þegar Breiðablik vann öruggan 3-0 sigur gegn Fylki í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Ísak Snær ætlar að klára tímabilið í Kópavoginum.  

„Þetta var góður sigur. Við þurftum að sýna þolinmæði að brjóta þá á bak aftur. Það tókst á endanum og að lokum unnum við á sannfærandi hátt. Við vildum koma sterkir til leiks eftir svekkelsið í Evrópukeppninni. Nú er bara ein keppni eftir og við viljum gera allt sem við getum til þess að vinna hana,“ sagði Ísak Snær sem spilaði vel í leiknum. 

Aðspurður um formið á sér segist hann vera að finna sitt fyrra form: „Það er smá vesen á náranum hjá mér en formið er hægt og bítandi að nálgast 100%. Nú er bara að halda áfram að spila vel og safna stigum og gera alvöru atlögu að Íslandsmeistaratitlinum,“ sagði framherjinn öflugi. 

Ísak Snær var svo spurður út í það hvort hann hyggðist klára tímabilið í herbúðum Blika en hann er á láni frá norska félaginu Rosenborg: „Já ég ætla að klára tímabilið hér heima og stefni svo á að fara út aftur í haust. Það er hungur í liðinu að ná toppsætinu og ég vil taka þátt í því. Mér líst mjög vel á framhaldið og er spenntur fyrir lokakaflanum,“ sagði hann um komandi tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×