Erlent

Blin­ken segir Gonzá­lez rétt­kjörinn for­seta en Maduro situr sem fastast

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken segir ljóst að niðurstöðurnar sem gefnar hafa verið út í Venesúela séu rangar.
Blinken segir ljóst að niðurstöðurnar sem gefnar hafa verið út í Venesúela séu rangar. AP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir sönnunargögn sýna að Edmundo González hafi borið sigur úr býtum í forsetakosningunum í Venesúela gegn Nicolás Maduro, sitjandi forseta.

Kosningarnar hafa verið harðlega gagnrýndar vegna fjölmargra brota sem virðast hafa verið framin í aðdraganda kosninganna og á meðan þeim stóð. Þá hafa stjórnvöld neitað að birta öll talningargögn.

Forsetar Brasilíu, Kólumbíu og Mexíkó hafa kallað eftir því að gögnin verði birt.

Kjörstjórn landsins tilkynnti um síðustu helgi að Maduro hefði sigrað í kosningunum en stjórnarandstaðan segir þetta einfaldlega rangt. Hún hefur komist yfir seðla úr flestum kosningavélum landsins og segir niðurstöðuna hreinlega falsaða.

Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna sýndu González með afgerandi forskot á Maduro.

Stjórnvöld víða um heim hafa kallað eftir því að yfirvöld í Venesúela færi sönnur á að Maduro hafi sigrað en forsetinn hefur sakað erlend ríki um afskipti af innanríkismálum Venesúela og segir framgöngu stjórnarandstöðunnar jafngilda valdaránstilraun.

Niðurstaðan hefur verið viðurkennd af Kína, Rússlandi og Íran.

María Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er í felum en hefur boðað til mótmæla á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×